Forsíða - fréttakubbur

Ellert markakóngur

📁 Forsíða - fréttakubbur, Fréttir á aðalsíðu kr.is 🕔20.January 2020
Kæru gestir og KRingar
Ég stend hér uppi, dáldið feiminn og hikandi vegna þess að ég gæti tekið upp á því að tala um fortíðina og ferilinn í fótboltanum, sem fæstir ykkar, eða harla fáir, muna eftir. Það eru nefnilega næstum 75 ár síðan ég mætti fyrst á æfingu hjá KR á Grímstaðarholtinu. Og fimmtíu ár eru liðinn síðan ég lagði skóna á hilluna í Laugardalnum. Ég á reyndar skóna ennþá og KR peysuna, og bý í Sörlaskjólinu, hér rétt hjá, og leyfi mér að sparka með barnabörnunum. En meira er það ekki lengur. Ég er orðinn svo yndislega gamall.
Ég var markakóngur KR í nær fimmtíu ár, en það gerðist í sumar að Óskar Hauksson, náði að skora fleiri mörk en ég á mínum ferli. Ég óska Óskari til hamingju með metið. Það var kominn tími til. Þannig á þetta að vera. Nýir leikmenn, ný mörk, ný met og nýjir meistarar. Íslandsmeistartitlarnir unnust í knattspyrnu og körfubolta í fyrra. En hvar? Jú, þar sem við sitjum núna, þar sem unga fólkið stundar íþróttaæfingar og við, eldra fólkið, höldum okkar þorrablót, og tók þátt í byggingu þessa mannvirkis, og þar sem ég æfði sjálfur.  Þá um miðja síðustu öld, þegar KR keypti jörðina, var hér bóndabær, sem hét hvað? Meistaravellir.
Ég þakka fyrir heiðurinn sem mér er sýndur, og þó að ég sé löngu hættur að spila með kappliðinu, þá get ég ennþá tekið undir með ykkur, í klappliðinu.
Allt er þetta að gerast í kjölfarið á áttræðisafmæli mínu. Ég er ekki feiminn lengur. En pínulítið montinn.
Áfram KR
Deila þessari grein