Fréttir á aðalsíðu kr.is

Fyrsti KR-ingurinn með svart belti

📁 Fréttir á aðalsíðu kr.is 🕔27.February 2018

Nú um helgina var Hilmar Örn Óskarsson fyrsti iðkandi taekwondo í KR til að öðlast svart belti í þessari kóresku bardagalist. Hilmar hefur æft með KR síðan fullorðinshópur hóf störf hér í Vesturbænum árið 2013 en áður hafði hann æft í ÍR. Síðan hefur hann vaxið og dafnað í íþróttinni, komið, séð og sigrað á mótum, byrjað að þjálfa yngstu byrjendurna og alltaf verið traustur og hjálpsamur félagi.

 

Hilmar stóðst prófið með glæsibrag en svona próf er margþætt og kröfuhart. Fyrst þurfti Hilmar að standast skriflegt próf og þrek próf til að fá að þreyta aðalprófið síðastliðinn laugardag. Þar þurftu próftakar að sýna kunnáttu sýna á ólíkum sviðum íþróttarinnar, form og bardagi voru hluti prófsins en líka sjálfsvörn, skrefabardagar og brot þar sem spýtur og múrsteinar fengu að finna fyrir því. Í lok prófsins fékk Hilmar svo sitt nýja belti og nýja galla en hann er nú með 1. dan og fylgir því nafnbótin kyosanim.

 

Með Hilmari fylgdist fjölmenni á áhorfendapöllum og fór þar talsvert fyrir æfingafélögum hans sem studdu duglega við bak hans. Samferða Hilmari í prófinu voru svo þrír aðrir taekwondo iðkendur og stóðust þau jafnframt sitt próf, Hildur Baldursdóttir fyrir 3. dan, Jóhann Daníel Jimma fyrir 2. dan og Karl Jóhann Garðarsson fyrir 3. dan en hann er jafnframt þjálfari í KR.

Deila þessari grein