Forsíða - fréttakubbur

Íslandsmeistaratitlar í taekwondo

📁 Forsíða - fréttakubbur, Fréttir á aðalsíðu kr.is, Taekwondo 🕔19.October 2015

KR-ingar héldu í fyrsta sinn á Íslandsmót í poomsae, tæknihluta taekwondo, nú fyrir skömmu. Keppendur voru fimm úr vesturbænum: Álfdís Freyja Hansdóttir, Snorri Bjarkason, Guðni Páll Jóelsson, Sólon Walker Brooksson og Daníel Sveinn Jörundsson. Öll var þau í fyrsta sinn gjaldgeng á Íslandsmóti því þau urðu/verða 12 ára á þessu ári.

 

Í tækni er keppt í ákveðnum formum og gefa dómarar einkunn byggða á nákvæmni, krafti, snerpu, liðleika, ákveðni, jafnvægi, takti og flæði. Keppt er í þremur greinum – einstaklings-, para- og hópapoomsae. Í parakeppni verða að vera karlkyns og kvenkyns keppandi saman en í hópakeppni eru liðin sett saman af þremur konum eða þremur körlum.

 

Sólon og Daníel kepptu  fyrstir af KR-ingunum og náðu fyrsta og öðru sæti í sínum beltaflokki í einstaklingskeppni. Sólon varð þannig fyrsti KR-ingurinn til að vinna sér inn Íslandsmeistaratitil í tækni í taekwondo. Næst kepptu Snorri og Guðni í stórum flokki og stóðu sig báðir með miklum sóma og náði Snorri öðru sæti.

 

Svipaða sögu er að segja af Álfdísi í einstaklingskeppninni, hún náði þar öðru sæti en aðeins munaði 0,016 stigum á fyrsta og öðru sæti! Álfdís keppti svo ásamt Snorra í parakeppni en þar rétt misstu þau af sæti á palli. Í parakeppni var ekki skipt í aldursflokka og því við erfiða andstæðinga að etja. Álfdís var svo síðust á gólf allra keppenda þegar hún keppti ásamt tveimur stúlkum úr Ármanni í hópakeppni. Þar gerðu þær sér lítið fyrir og unnu flokkinn. Álfdís fékk því verðskuldaðan Íslandsmeistaratitil í safnið.

 

Með þessum framúrskarandi árangri náði KR fjórða sæti í stigakeppni liða sem er góður árangur með ekki fleiri keppendur en raun bara vitni.

taetae

Við óskum nýkrýndum Íslandsmeisturum til hamingju með titlana sem og öllum keppendum með góðan árangur.

Deila þessari grein