Forsíða - fréttakubbur

KR 120 ára

📁 Forsíða - fréttakubbur, Fréttir á aðalsíðu kr.is 🕔16.February 2019

KR 120 ára

Í dag er KR 120 ára. Það eru ekki mörg félög hér á landi sem eiga sögu sem nær til þriggja alda, 19., 20., og 21. aldarinnar. Söguna um piltanna sem stofnuðu Fótboltafélag Reykjavíkur þann 16. febrúar 1899 kunna flestir KR-ingar. Sagt er að piltarnir hafi komið saman í verslun Guðmundar Olsen í Aðalstræti og stofnað félag um kaup á „knetti“. Framlag hvers og eins var 25 aurar og dugðu þeir ekki til, til að standa straum af andvirði knattarins þannig að hann fékkst með afborgunum. Því má segja að úr þessu „25 aura félagi“ hafi verið lagður grunnur að öflugasta og sigursælasta íþróttafélagi landsins. Árið 1915 var nafni félagsins breytt í Knattspyrnufélag Reykjavíkur því orðið „fótboltafélag“ þótti vera of dönskuskotið.

Það eru ekki til margar skrifaðar heimildir um Fóboltafélag Reykjavíkur á fyrstu árum félagsins, þó má sjá auglýsingu frá Fótboltafélagi Reykjavíkur í Ísafold frá 14. maí 1910, skömmu áður en  „Vakningarfundurinn“ svokallaði var haldinn eða þann 29. júní 1910, en þá komst á formlegt og fast skipulag á félagsstarfið í KR. Í auglýsingunnir segir: „Yngismenn, eldri en 15 ára sem vilja taka þátt í fótboltaleikum á þessu sumri, gefi sig fram sem fyrst við Þorstein Jónsson bankaaðstoðarmann“, en Þorsteinn var formaður félagsins.

Á þessum 120 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og á tímamótum sem þessum er okkur KR ingum fyrst og fremst í huga þakklæti til allra þeirra KR inga sem í þessi 120 ár hafa lagt hönd á plóginn í starfi KR, stjórnarmönnum deilda, sjálfboðaliðum, iðkendum, foreldrum og forráðamönnum þeirra, þjálfurum, stuðningsmönnum og stuðningsaðilum. Verðmæti okkar KR inga hefur ætíð verið í þessum mannauði og mun gera það um ókomna tíð.

Starfið í KR er með blómlegasta móti. Iðkendum fjölgar ört og í dag eru iðkendur KR á þriðja þúsund á öllum aldri og fer fjölgandi, í 14 íþrótta- og félagsdeildum. Iðkendur gera miklar kröfur um aðstöðu til að stunda sínar íþróttir og á það ekki síst við um æfingatíma. Það eru ekki mörg félög í Reykjavík sem eru svokölluð fjölgreinafélög, eins og KR er. Árið 1923, í tíð formennsku og að frumkvæði Kristjáns L. Gestssonar var samþykkt að gera félagið að fjölgreina eða fjölíþróttafélagi.

Það segir sig sjálft að þegar félag er með starfsemi í 14 íþrótta- og félagsdeildum þá er erfitt að verða við óskum allra um æfingatíma og aðstöðu. En það horfir til betri vegar í þeim efnum á næstu árum. Á undanförnum árum hafa fulltrúar nokkurra íþróttagreina komið að máli við okkur KR inga og óskað eftir því að fá að hefja starfsemi undir merkjum KR, en ekki hefur verið hægt að verða við þeim óskum vegna aðstöðunnar.

Það er margt sem félagið mun gera á afmælisárinu. Á aðalfundi félagsins 2. maí nk, munum við minnast afmælisins með veglegum hætti, sérstök afmælishátíð verður haldin í haust, deildir KR munu minnast afmælisins sérstaklega og mun Píluvinafélag KR ríða á vaðið og vera með sérstakt afmælismót föstudaginn 22. febrúar. Erlendur Ó. Pétursson eða EÓP, einn ástsælasti formaður KR sagði eitt sitt að „KR á ekki aðeins eina sál þegar mikið er í húfi, heldur líka aukakraft sem oft hefur fært KR sigurinn heim“.

Svo hið fjölbreytta starf innan KR gangi upp þarf félagið að reiða sig á fjölda sjálfboðaliða sem á hverju ári sinna fórnfúsu og frábæru starfi innan KR. Það hefur verið gæfa KR að eiga öflugan hóp sjálfboðaliða og stuðningsmanna. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim öllum fyrir þeirra frábæra og óeigingjarna starf fyrir gamla góða KR.

Að lokum, eitt af gildum okkar KR – inga er gleði, það er gaman að vera KR –ingur. KR leggur áherslu á að samvera okkar í KR sé ánægjuleg og skemmtileg og jákvæð hvatning er okkar leiðarljós.

Til hamingju með afmælið KR ingar,

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR.

Deila þessari grein