Forsíða - fréttakubbur

Rausnarlegt framlag í Framtíðarsjóð KR

📁 Forsíða - fréttakubbur, Fréttir á aðalsíðu kr.is 🕔05.June 2019

Rausnarlegt framlag í Framtíðarsjóð KR

KR var stofnað 1899 og 120 ára saga félagsins geymir marga glæsta sigra. Ekkert skiptir þó KR meira máli en hið mikilvæga barna- og unglingastarf og það félagslega hlutverk sem KR hefur gegnt í nærsamfélagi sínu alla tíð. KR hefur mikinn metnað til að sinna þessu mikilvæga hlutverki sínu enn betur til framtíðar litið.

Eitt skref í þeirri viðleitni var stofnun Framtíðarsjóðs KR fyrir nokkrum árum. Markmið Framtíðarsjóðs KR er að verða með tíð og tíma hornsteinn félagsins alls, varanlegur grunnur fyrir framþróun félagsins um ókomin ár.

Í sjóðnum eru nú u.þ.b. 14 milljónir króna. Munar þar mestu um rausnarlegt framlag að upphæð 10 milljónir króna sem örlátur KR-ingur færði sjóðnum nýlega. Í bréfi frá þessum einstaklingi, sem kýs að njóta nafnleyndar, sagði m.a.:

“KR hefur verið mikilvægur hluti af lífi mínu í hartnær 60 ár, ól mig upp, á stóran þátt í að gera mig að þeirri persónu sem ég er og hefur gefið mér endalaus tilefni til að gleðjast og vera stoltur af því að tilheyra félaginu.

Ég vona að sterkari Framtíðarsjóður verði hvatning fyrir aðra sem meta þátt KR í lífi sínu mikils til að leggja eitthvað af mörkum, og fleiri verði tilbúnir að taka þátt í því að byggja upp Framtíðarsjóð fyrir félagið, sjóð sem mun halda nafni okkar á lofti og stuðlar að því að KR verði ávallt í fremstu röð”.

Framtíðarsjóður KR þakkar kærlega fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Framtíðarsjóður KR leitar nú til stuðningsmanna og velunnara félagsins, í því skyni að efla sjóðinn enn frekar. Þú getur lagt framtíð KR lið og styrkt Framtíðarsjóð KR með eingreiðslu eða mánaðarlegum stuðningsgreiðslum. Framlög í Framtíðarsjóð KR geta verið í ýmsu formi styrkja og gjafa, s.s. afmælisgjafa, arfs, minningarkorta, í tengslum við skipulögð söfnunarátök eða vörusölu.

Framtíðarsjóður KR er sjálfseignarstofnun. Framlög í Framtíðarsjóð KR mynda höfuðstól sem skerðist ekki og vex með nýjum framlögum. Aðeins má nota ávöxtun sjóðsins, umfram verðbólgu, til úthlutunar til verkefna sem teljast stuðla að framtíðarheill félagsins, s.s. uppbyggingar og þróunar á starfsemi og aðstöðu. Úthlutunum úr sjóðnum er þannig ekki ætlað að standa undir daglegum rekstri félagsins eða einstakra deilda.

Nánari upplýsingar um Framtíðarsjóð KR og hvernig hægt er að styrkja sjóðinn má finna á: kr.is/framtidarsjodur.

Nánari upplýsingar veitir Jónas Kristinsson, s. 695-5252, jonas@kr.is.

 

Deila þessari grein