Forsíða - fréttakubbur

Skúli Jón nefbrotinn og með beinbrot við augntóftina – fer í aðgerð í fyrramálið

📁 Forsíða - fréttakubbur, Fréttir á aðalsíðu kr.is 🕔12.May 2018

Skúli Jón Friðgeirsson verður frá í 4-6 vikur en hann meiddist alvarlega í leik Grindavíkur og KR í dag. Skúli Jón stökk upp í skallabolta í seinni hálfleik og lenti í samstuði við Juanma Ortiz, leikmanns Grindavíkur, sem endaði með því að Skúli Jón lá óvígur eftir. Juanma fékk einungis að líta gula spjaldið fyrir brotið á Skúla.

Skúli meiddist alvarlega við samstuðið, hann er nefbrotinn og brot kom við augntóftina og þarf hann að fara í aðgerð í fyrramálið.

“Ég stökk upp í boltann til að skalla hann og fannst ég fá olnbogaskot í andlitið. Ég sá ekkert eftir þetta enda blæddi nálægt auganu og það kom í ljós við skoðun að það er brot í neðanverðri augntóftinni. Ég fer í aðgerð í fyrramálið þar sem sjónin er ekki góð og verð að vona það besta. Þetta er stórhættulegt og á ekki að sjást á fótboltavellinum enda hefði getað farið mun verr. Ég sé ekki að þetta eigi mikið skylt við fótbolta,” segir Skúli Jón.

Samkvæmt heimildum KR.is sló sami leikmaður til Albert Watson stuttu eftir brotið á Skúla eftir hann sendi boltann frá sér. Albert lét dómara leiksins vita af atvikinu sem virðist ekki hafa tekið eftir því.

Við sendum Skúla batakveðjur og vonumst til að sjá hann sem allra fyrst á vellinum!

 

Deila þessari grein