Forsíða - fréttakubbur

Taekwondo-stelpur í fremstu röð

📁 Forsíða - fréttakubbur, Taekwondo 🕔31.March 2015

Mars mánuður var góður fyrir KR stelpur í taekwondo. Ein stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmóti í bardaga og önnur var tekin í landslið í formum. Í báðum tilvikum er um að ræða frábæran árangur og viðurkenning á þrotlausri vinnu og dugnaði þeirra.

Selma Meddeb kom sá og sigraði í hærri belta flokki stúlkna (12 til 14 ára) á Íslandsmóti sem haldið var í Keflavík 15. mars síðastliðinn. Íslandsmeistaratitilinn tryggði Selma sér með yfirburðum en úrslitabardagi hennar endaði 30-10 henni í vil. Greinilegt að þarna er á ferð bardagakona sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.

Álfdís Freyja Hansdóttir hefur í vetur æft með hæfileikahópi í formum og vakti sérstaka athygli landsliðsþjálfara á Reykjavík International Games. Í kjölfarið af því móti var henni boðið að æfa eina helgi með landsliðshópnum og í eftir góða frammistöðu hennar þar var henni svo boðið að verða fullgildur meðlimur í landsliðinu. Álfdís varð 12 ára núna í janúar en í landsliðinu er keppnisfólk í öllum aldursflokkum sem keppt geta á alþjóðlegum mótum. Það er svo næsta skref hjá Álfdísi að keppa á mótum erlendis með landsliðinu.

landslið í poomsae 2015
Við óskum Selmu og Álfdísi innilega til hamingju með frábæran árangur!
Deila þessari grein