Forsíða - fréttakubbur

Þórir Jónsson

📁 Forsíða - fréttakubbur, Fréttir á aðalsíðu kr.is 🕔05.July 2017

Þórir Jónsson, framkvæmdastjóri, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. júlí síðastliðinn, á nítugasta og fyrsta aldursári.

Þórir Jónsson

Þórir fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1926 sonur Jóns Ragnars Jónssonar, skipasmiðs, og Sigríðar Hannesdóttur, verkakonu. Hann lauk námi í bifvélavirkjun 1946. Þórir var umsvifamikill á ýmsum sviðum, meðal annars í iðnaði, viðskiptum og íþróttum.

Þórir stofnaði og rak vélaverkstæðið Þ. Jónsson og Co, hann rak um til margra ára Fordumboðið Svein Egilsson og var einn helsti baráttumaður stofnunar skipafélagsins Bifrastar, sem gerbreytti bílainnflutningi til Íslands. Þá sat hann í stjórn Reykjaprents og stóð að útgáfu Vísis og DV um árabil.

 

Þórir keppti fyrir Íslands hönd í svigi og bruni á vetrarólympíuleikunum í St. Moritz árið 1948, fyrstu vetrarólympíuleikunum sem Ísland keppti á. Hann var alla tíð ötull og virkur baráttumaður framþróunar á aðbúnaði og umgjörð til skíðaiðkunar. Einnig gengdi Þórir ýmsum félagsstörfum en hann var formaður Bílgreinasambandsins, formaður skíðadeildar KR, formaður Skíðasambands Íslands og meðlimur í Rótarýklúbb Reykjavíkur. Þá var hann sæmdur heiðursstjörnu Skíðasambands Íslands og Stjörnu KR, fyrir störf sín í þágu KR og skíðaíþróttarinnar.

 

Þórir lætur eftir sig eiginkonu, Jósefínu Láru Lárusdóttur og fjögur börn.

 

Við KR –ingar minnumst Þóris með miklu þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir gamla góða KR og þökkum honum samfylgdina í gegnum tíðina. KR – ingar senda eiginkonu hans, börnum og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

 

 

Deila þessari grein