Borðtennisdeild

Aldís Rún og Davíð Íslandsmeistarar í tvenndarleik

📁 Borðtennisdeild 🕔03.March 2018
Aldís Rún og Davíð Íslandsmeistarar í tvenndarleik

Davíð Jónsson og Aldís Rún Lárusdóttir, KR, urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik á fyrri degi Íslandsmótsins í borðtennis, sem fram fer í TBR-húsinu helgina 3.-4. mars. Þetta er í þriðja skipti sem þau verða Íslandsmeistarar í tvenndarleik. KR sigraði tvöfalt í tvenndarleik því í úrslitum unnu Davíð og Aldís Gunnar Snorra Ragnarsson og Ársól Clöru Arnardóttur úr KR 3-0 (11-5, 11-6, 11-9) og töpuðu ekki lotu í tvenndarkeppninni. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH/Ásta Urbancic, KR og Magnús Gauti Úlfarsson/Sól Kristínardóttir Mixa, BH höfnuðu í 3.-4. sæti.

Davíð og Gunnar Snorri komu gagngert til landsins til að taka þátt í Íslandsmótinu. Davíð er við nám í læknisfræði í Slóvakíu og Gunnar Snorri hefur verið við verkfræðinám í Gautaborg en starfar nú þar sem verkfræðingur.

Sunnudaginn 4. mars verður leikið í undanúrslitum og úrslitum í öðrum flokkum en tvenndarkeppni. KR á leikmenn í undanúrslitum í öllum flokkum. Í meistaraflokki karla verður KR-ingur í úrslitum, því Davíð Jónsson og Ingólfur Sveinn Ingólfsson mætast í öðrum undanúrslitunum. Í meistaraflokki kvenna eru tvær KR-konur í undanúrslitum en mætast ekki fyrr en í úrslitum ef þær ná þangað. Þetta eru þær Aldís Rún Lárusdóttir, og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir.

 

Úrslit úr leikjum dagsins má sjá á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=E9E2DC79-9A5B-40EE-BCF2-146E85035E7E

 

Deila þessari grein