Borðtennisdeild

Gullspaðar afhentir á uppskeruhátíð Borðtennisdeildar KR

📁 Borðtennisdeild 🕔10.May 2019
Gullspaðar afhentir á uppskeruhátíð Borðtennisdeildar KR

Uppskeruhátíð Borðtennisdeildar KR var haldin í Íþróttahúsi Hagaskóla föstudaginn 10. maí. Þar komu iðkendur saman og tókust á við ýmsar borðtennisþrautir, t.d. að halda á lofti, fella plastglös með borðtenniskúlum, spila við róbot, prófa hvað þau gátu slegið oft við þjálfara án þess að missa boltann og halda kúlu á spaðanum í gegnum þrautabraut. Veittar voru viðurkenningar fyrir besta árangurinn og var það Tristan Gauti Arnórsson sem fékk flest stig. Fékk hann gjafabréf á ís í verðlaun. Einn heppinn leikmaður sem kláraði þrautirnar var dreginn út og fékk líka ís og var það Guðmundur Berg Markússon sem var sá heppni.

Þá voru veittir gullspaðarnir sem viðurkenning fyrir ýmis atriði, t.d. árangur, ástundun, framfarir, jákvæðni og liðsanda og fékk einn leikmaður úr hverjum hópi viðurkenningu. Forsíðumyndin sýnir þá sem fengu spaðana þetta árið með þjálfurunum Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, Bergrúnu Lindu Björgvinsdóttur og Skúla Gunnarssyni. Gullspaðana fengu Elvar Pierre Kjartansson, Gunnar Þórisson, Gunnhildur Sturludóttir, Lóa Floriansdóttir Zink, Magnús Thor Holloway, Pétur Þór Marinósson og Viliam Marchiník.

Ársól Clara Arnardóttir fékk viðurkenningu fyrir að hafa komist upp í meistaraflokk í fyrsta skipti á keppnistímabilinu.

Einnig var sýnt myndband af starfi deildarinnar í vetur, sem Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Haukur Óskar Þorgeirsson bjuggu til.

Sumarnámskeið og sumaræfingar voru kynntar, en meira um það í annarri frétt.

Loks var tilkynnt um val borðtennisfólks KR, en nánar verður fjallað um það í annarri frétt.

 

 

 

 

Uppfært 11.5.2019

Deila þessari grein