Hagnýtar upplýsingar

Hagnýtar upplýsingar

Viltu prófa borðtennis?

Börn og ungmenni geta mætt í prufutíma skv. æfingatöflu. Ef þið vitið ekki hvaða hóp þið tilheyrið má senda póst á Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, yfirþjálfara (audurta@hotmail.com).

Þeir sem hafa áhuga á að mæta í öðlingahópinn eru velkomnir á þriðjudögum skv. æfingatöflu. Það kostar ekkert að koma á eina æfingu til reynslu.

Æfingar:

Borðtennisdeild KR er með aðstöðu í íþróttahúsi Hagaskóla (inngangurinn fyrir miðju húsi).

Munið að mæta á réttum tíma á æfingar með spaða og í íþróttafötum (flestir eru í stuttermabol og stuttbuxum) og innanhússíþróttaskóm.

Gott er að hafa vatnsbrúsa með á æfingar og (eldri) leikmenn sem svitna mikið eru gjarnan með lítið svitahandklæði með sér.

Mikilvægt er að láta þjálfara vita af veikindum/forföllum, t.d. með tölvupósti eða sms.

Mót:

Allmörg mót eru haldin yfir veturinn (á vegum KR og annarra félaga) og er misjafnt hvað hentar hverjum leikmanni að taka þátt í mörgum mótum.

Leikmenn greiða sjálfir keppnisgjöld nema á þeim mótum sem tilgreind eru undir flipanum æfingagjöld. Mikilvægt er að leikmenn séu búnir að læra að gefa upp og kunni helstu reglur áður en tekið er þátt í fyrsta mótinu. Þjálfarar geta ráðlagt um hvaða mót henta best.

Klæðnaður í keppni (mótum og deildaleikjum) er keppnisbolur deildarinnar, svartar stuttbuxur, sokkar og innanhússíþróttaskór.

Fjölskylduafsláttur:

Við hvetjum sem flesta til að nýta sér fjölskylduafslátt deildarinnar. Veittur er 12,5% fjölskylduafsláttur af æfingagjöldum ef fleiri en einn úr sömu fjölskyldu stunda borðtennis hjá deildinni. Við höfum góða reynslu af því að fá foreldra inn í öðlingahópinn þar sem færi gefst á að hreyfa sig og hafa gaman af en ekki síst að öðlast meiri skilning á íþróttagrein barnanna. Fjölskylduafslátturinn gildir líka fyrir hjón/pör.

Spaðakaup:

Allir nýjir leikmenn í borðtennisskólanum fá spaða til eignar þegar æfingagjöld hafa verið greidd. Þegar leikmenn hafa æft í eitt ár (stundum fyrr) mælum við með því að þeir kaupi betri spaða. Þá er grindin (tréspýtan) keypt sér og gúmmíin (eitt rautt og eitt svart) sér. Á Íslandi er aðeins hægt að kaupa þetta á einum stað, hjá Sigurði V. Sverrissyni (pingpong.is) en þjálfarar geta aðstoðað við valið. Við ráðleggjum fólki að forðast tilbúna spaða sem seldir eru í íþróttavöruverslunum.

Uppfært 30.8. 2016.

ORÐABÓKIN

Uppgjöf: Fyrsta högg leiksins sem kemur kúlunni í spil. Kasta þarf kúlunni beint upp í loftið og slá hana með spaðanum svo kúlan lendi fyrst í borðinu nær og skoppi síðan yfir netið á hinn helming borðsins. Hver leikmaður gerir tvær uppgjafir í senn.

Snúningur: Hægt er að setja ýmsa snúninga á kúluna bæði í uppgjöf of í spili til þess að gera andstæðingnum erfitt fyrir.

Net: Netið skilur að tvo helminga borðsins. Ef kúlan fer í netið í (annars löglegri) uppgjöf þarf að endurtaka uppgjöfina og enginn fær stig. Enging takmörk eru fyrir því hversu oft það getur verið net í uppgjöf.

Stig: Leikmaður fær stig ef hinn leikmaðurinn nær ekki að setja kúluna löglega á borðið. Aðeins er hægt að fá eitt stig í einu.

Lota: Ein lota er spiluð frá stöðunni 0-0 og þangað til annar leikmaðurinn nær 11 stigum. Vinna þarf með tveggja stiga mun. Eftir að stöðunni 10-10 er náð skiptast leikmenn á að gefa upp.

Leikur: Til að vinna leik þarf að vinna 3-4 lotur (fer eftir móti og er það auglýst fyrir hvert mót).

Leikhlé/timeout: Hver leikmaður má biðja um leikhlé einu sinni í hverjum leik og er þá gert allt að einnar mínútu hlé þar sem færi gefst á að ræða við þjálfara og fá sér að drekka.

Gúmmí: Á borðtennisspaða þurfa að vera tvö gúmmí, eitt rautt og eitt svart. Flestir eru með slétt gúmmí en einnig eru til svokölluð takkagúmmí sem hafa aðra virkni á snúning en þau hefðbundnu. Gúmmíin slitna og þarf að endurnýja reglulega, tíðni fer eftir styrkleika leikmanns og notkun.

Grind: Tréspýtan sem gúmmíin eru límd á. Grindin getur enst í mörg ár en hún fæst með mismunandi eiginleikum.

Lím: Notað er sérstakt vatnsleysanlegt lím til þess að festa gúmmíin á grindina. Hægt er að taka gúmmíin af án þess að þau eða grindin skemmist.

Kúluæfingar/kínaæfingar/multiball: Æfing þar sem leikmaður stendur við borðtennisborð og fær sendar kúlur á sig. Yfirleitt eru tveir leikmenn sem skiptast á, þar sem annar tínir upp kúlur á meðan hinn tekur við kúlum frá þjálfara/sendanda. Notað til að æfa ákveðin högg, snúninga, snerpu og þol. Yfirleitt eru notaðar um 100-200 kúlur.

Share this article with friends