Borðtennisdeild

Kári og Jóhannes sigruðu í tvíliðaleik á Arctic mótinu í Færeyjum

📁 Borðtennisdeild 🕔14.May 2017
Kári og Jóhannes sigruðu í tvíliðaleik á Arctic mótinu í Færeyjum

Kári Mímisson (KR) og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson (BH) unnu eina gull Íslands á Arctic mótinu í Færeyjum um helgina þegar þeir sigruðu Inga Darvis Rodriquez (Víkingi) og Magnús Gauta Úlfarsson (BH) í úrslitum. Kári varð jafnframt í 3.-4. sæti í einliðaleik karla en hann tapaði fyrir sigurvegaranum, Ivik Nielsen frá Grænlandi í undanúrslitum. Þá var Kári í liði Íslands-1, sem varð í 3. sæti í liðakeppni karla en með honum voru Skúli Gunnarsson (KR) og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson (BH). Ísland-2 varð í 2. sæti og Ísland-3 (þar á meðal Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, KR) í 4. sæti en öll þrjú íslensku liðin fengu jafnmarga vinninga. Grænland sigraði í liðakeppni karla.

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir varð í 3. sæti í tvíliðaleik kvenna en hún lék með Ingilli Petersen frá Grænlandi. Aldís Rún Lárusdóttir og Sigrún Ebba Urbancic Tómasdóttir urðu í 4. sæti í tvíliðaleik en liðin í 3.-5. sæti hlutu öll jafnmarga vinninga.

Færeysku konurnar sigruðu í liðakeppni kvenna en liðin í 2.-4. sæti hlutu jafnmarga vinninga og varð Ísland í 4. sæti á óhagstæðara vinningshlutfalli. Liðið var eingöngu skipað leikmönnum úr KR, þeim Aldísi, Auði og Sigrúnu.

Aldís Rún varð í 5.-8. sæti í einliðaleik kvenna og Aldís og Jóhannes Bjarki höfnuðu í 5.-8. sæti í tvenndarleik.

Skúli Gunnarsson (KR) og Sindri Þór Sigurðsson (Víkingi) og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson (KR) og Tómas Ingi Shelton (BH) urðu í 5.-8. sæti í tvíliðaleik karla.

Mynd af Facebook síðu Borðtennissambands Íslands, en þar má sjá frekari umfjöllun um mótið, sem og á vefsíðu BTÍ, www.bordtennis.is.

Deila þessari grein