Borðtennisdeild

KR-B varð í 2. sæti í 1. deild kvenna í borðtennis

📁 Borðtennisdeild 🕔14.April 2019
KR-B varð í 2. sæti í 1. deild kvenna í borðtennis

B-lið KR lék til úrslita við Víking í 1. deild kvenna, Raflandsdeildinni, í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði laugardaginn 13. apríl. Leiknum lauk við 3-0 sigri Víkings, en tveir af leikjunum töpuðu KR stúlkurnar í oddalotu.

Nevena Tasic úr Víkingi hefur ekki tapað leik í vetur og á því varð ekki breyting þegar hún sigraði Kristínu Ingibjörgu Magnúsdóttur örugglega 3-0. Næst léku Agnes Brynjarsdóttir fyrir Víking og Lóa Floriansdóttir Zink fyrir KR-B. Leikurinn var mjög jafn og lauk flestum lotunum með tveggja stiga mun. Lóa var 2-1 yfir í lotum og hafði 10-7 forystu í fjórðu lotunni en náði ekki að innbyrða sigurinn og Agnes kom til baka og vann lotuna. Oddalotunni lauk svo með 11-9 sigri Agnesar og staðan 2-0 fyrir Víking. Í tvíliðaleiknum léku Agnes og Stella Karen Kristjánsdóttir fyrir Víking og Lóa og Þóra Þórisdóttir fyrir KR. Víkingur vann tvær fyrstu loturnar og þurfti aðeins eitt stig í þriðju lotunni til að innbyrða sigurinn. KR-stúlkurnar knúðu fram sigur í lotunni og unnu svo fjórðu lotuna. Víkingsstúlkurnar unnu svo öruggan sigur í oddalotunni og fögnuðu fyrsta titli félagsins í fimm ár en KR vann síðustu fjögur árin.  Auk þeirra sem léku í dag er Þórunn Ásta Árnadóttir í liði Víkings og Lára Ívarsdóttir í liði KR.

A-lið BH í Hafnarfirði sigraði í 1. deild karla í fyrsta skipti, en liðið lagði Íslandsmeistara Víkings 3-1 í úrslitaleiknum. Tveir af fjórum leikmönnum BH eru aldir upp í KR, þeir Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson. Þjálfari BH, Tómas Ingi Shelton er einnig uppalinn í KR.

Umgjörðin um úrslitaleikina var einstaklega glæsileg af hálfu BH og BTÍ. Leikirnir voru sýndir beint á vefnum og var þeim lýst. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir hafði umsjón með lýsingunum og fékk til sín viðmælendur. Hægt er að horfa útsendingarnar og er slóðin á fésbókarsíðu BTÍ og hér fyrir neðan. Tveir landsdómarar voru á hverjum leik. Þá var áhorfendum boðið upp á veitingar.

Mynd á forsíðu og mynd af Auði og Aldísi teknar af fésbókarsíðu BTÍ. Mynd frá verðlaunaafhendingu tók Ásta M. Urbancic

Deila þessari grein