Borðtennisdeild

KR í verðlaunasætum í Raflandsdeildinni í borðtennis

📁 Borðtennisdeild 🕔02.February 2019
KR í verðlaunasætum í Raflandsdeildinni í borðtennis

Lokaumferðir Raflandsdeildarinnar í borðtennis (1. deild) voru leiknar í Íþróttahúsi Hagaskóla laugardaginn 2. febrúar. Að keppni lokinni var ljóst að A-lið KR varð í 2. sæti í Raflandsdeild kvenna með 18 stig, eða jafnmörg stig og Víkingur, en hafði verra hlutfall unninna og tapaðra leikja en Víkingskonur. Víkingur er því deildarmeistari í Raflandsdeild kvenna. Ársól Clara Arnarsdótti vann alla 7 einliðaleiki sína í deildinni, þar á meðal Íslandsmeistarann Stellu Karen Kristjánsdóttur úr Víkingi tvívegis.

B-lið KR varð í 3. sæti með 10 stig og BH í 4. sæti, sömuleiðis með 10 stig, en KR-B hafði betra hlutfall unninna og tapaðra leikja. Þessi fjögur lið leika í úrslitakeppninni og mætast Víkingur og BH annars vegar og KR-A og KR-B hins vegar. Úrslitakeppnin er á mótaskrá í apríl.

C-lið KR varð svo í 5. sæti deildarinnar með 4 stig og lið Umf. Samherja fékk ekkert stig.

Í Raflandsdeild karla varð A-lið KR í 3. sæti með 12 stig. BH vann deildarmeistaratitilinn í fyrsta skipti síðan byrjað var að veita þann titil vorið 2010, en til þessa hafa eingöngu KR-ingar og Víkingar orðið deildarmeistarar, hvort sem litið er til karla- eða kvennadeildarinnar. BH tapaði ekki leik í deildinni og fékk 20 stig. Þess má geta að tveir af fjórum keppendum BH eru uppaldir í KR.

KR-A mætir Víkingi-A í úrslitakeppninni en Víkingur-A varð í 2. sæti í deildinni.

B-lið KR varð í 5. sæti deildarinnar með 4 stig, og leikur umspilsleik við liðið sem hafnar í 2. sæti í 2. deild um sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili.

Verðlaunahafar í Raflandsdeild karla: Lið KR-A skipuðu Breki Þórðarson, Ellert Kristján Georgsson, Ingólfur Ingólfsson og Kári Ármannsson. Lið Víkings-A vantar á myndina, sem og Ingólf Ingólfsson, KR og Birgi Ívarsson, BH. Tómas Ingi Shelton, þjálfari BH er með á myndinni.

 

Á forsíðumyndinni má sjá verðlaunahafa í Raflandsdeild kvenna: Lið KR-A skipuðu Aldís Rún Lárusdóttir, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, Anna Sigurbjörnsdóttir, Ársól Clara Arnarsdóttir og Ásta M. Urbancic. Lið KR-B skipuðu Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, Lára Ívarsdóttir, Lóa Floriansdóttir Zink og Þóra Þórisdóttir. Aldísi Rún Lárusdóttur, KR-A og Þórunni Ástu Árnadóttur, Víkingi, vantar á myndina.

Úrslit úr leikjum í 9. og 10. umferð

Raflandsdeild karla

Víkingur – KR A 3-1

HK B – BH 0-3

HK A – KR B 2-3

HK B – KR B 3-1

BH – KR A 3-1

Víkingur – HK A 3-0 (HK var aðeins með einn leikmann og gaf því leikinn)

Raflandsdeild kvenna

KR B- Víkingur 0-3

Samherjar – KR C 0-3 (Samherjar mættu ekki)

KR A – BH  3-0

Víkingur – KR C 3-0

BH – KR B 3-1

KR A – Samherjar 3-0 (Samherjar mættu ekki)

Öll úrslit úr leikjum deildarinnar og tölur um árangur einstakra leikmanna má sjá á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=5F6B23C6-A4BF-4DD7-9579-BCBF9F513EEE

Myndir frá Ingimar Ingimarssyni.

 

Deila þessari grein