Borðtennisdeild

Úrslit úr fyrri undanúrslitaleikjunum í deildakeppninni í borðtennis

📁 Borðtennisdeild 🕔06.April 2019
Úrslit úr fyrri undanúrslitaleikjunum í deildakeppninni í borðtennis

Í dag var leikið í undanúrslitunum í Raflandsdeild (1. deild) karla og kvenna í Íþróttahúsi Snælandsskóla í Kópavogi. Samkvæmt breyttu fyrirkomulagi verða leiknir tveir undanúrslitaleikir og fer seinni leikurinn fram á morgun, 7. apríl.

Í Raflandsdeild kvenna mættust KR-A og KR-B, en liðin urðu í 2. og 3. sæti deildarinnar. B-lið KR vann óvæntan 3-1 sigur á Íslandsmeisturum KR-A í kvennadeildinni. Aldís Rún Lárusdóttir sigraði Láru Ívarsdóttur í einliðaleik og vann eina leikinn fyrir A-liðið. Lóa Floriansdóttir Zink og Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir unnu Ársól Clöru Arnardóttur og Lóa og Kristín sigruðu Aldísi og Ástu Urbancic í tvíliðaleik.

A-lið KR mætti A-liði Víkings í Raflandsdeild karla og höfðu Víkingar sigur 3-1. Ellert Kristján Georgsson vann eina leik KR-inga, en hann lagði fyrrum Íslandsmeistara og næst stigahæsta leikmanninn á styrkleikalistanum, Magnús K. Magnússon 3-0. Ingólfur Sveinn Ingólfsson tapaði fyrir Inga Darvis Rodriguez, Kári Ármannsson tapaði fyrir Magnúsi K., og Ingólfur og Kári töpuðu fyrir Inga og Magnúsi Jóhanni Hjartarsyni í tvíliðaleik.

Úrslit í 2. deild karla fóru einnig fram í dag og þar sigraði B-lið BH úr Hafnarfirði. BH verður því með tvö lið í 1. deild karla á næsta keppnistímabili.

B-lið Víkings varð í 2. sæti í 2. deild og leikur við B-lið KR, sem varð í 5. sæti í deildinni, um sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili.

Á forsíðumyndinni má sjá Ellert á Íslandsmótinu 2019.

 

Deila þessari grein