Saga deildar

Saga deildar

Glímudeild KR var stofnuð 1923 fyrir tilstuðlan Kristjáns L. Gestssonar formanns KR.  Hann fékk jafnframt Benedikt Waage til þess að þjálfa glímumenn deildarinnar á þeim tíma.  Ári síðar, eða þann 17. júní 1924, tóku fjórir glímumenn úr KR þátt í Allsherjarmóti ÍSÍ.  Þetta voru þeir Jón Ólafsson, Sigurður Jafetsson, Þorsteinn Jónsson og Ágúst E. Sigurðsson sem jafnframt teljast fyrstu keppendur KR er tóku þátt í opinberu móti í glímu.  Árið 1926-1927 þjálfaði Sigurjón Guðmundsson en við starfi hans tók Þorgeir Jónsson frá Varmalandi (Geiri í Gufunesi), þá Glímukappi Íslands.  Í janúar 1929 var fyrst keppt um KR-bikarinn – Glímukappi KR.  Um þennan bikar, með örfáum undantekningum, hefur verið keppt allar götur síðan.  Fyrsti sigurvegari var Tómas Guðmundsson.  Jörgen Þorbergsson tók við af Þorgeiri sem þjálfari 1933.  Árið 1942 varð svo Ágúst Kristjánsson þjálfari deildarinnar eða allt fram til ársins 1949 þegar Þorsteinn Kristjánsson tók við.  Ýmsir hafa komið að þjálfun barna og unglinga sem of langt mál væri að nefna.

Share this article with friends