Að eiga barn í handbolta

Fróðleikur fyrir foreldra.

 

Handknattleiksdeild KR starfar innan landssambandsins HSÍ, Handknattleikssambands Íslands, og tekur þátt í Íslandsmótum á vegum þess.

 

Skipulag æfinga og keppni er það sama í yngstu flokkum, til og með 5. flokki.

 

Æfingar eru 3-4 í viku, auk keppni.  Æfingar fara fram í Íþróttahúsi Hagaskóla og KR heimilinu.

 

Yngstu flokkarnir, sjöundi og áttundi flokkur, taka þátt í 2-3 mótum yfir veturinn.  Mótagjald er innifalið í æfingagjöldum, og er greitt fyrir hvern keppanda.

Sjötti og fimmti flokkur taka þátt í 5 mótum yfir veturinn.  Mótagjöld eru innifalin í æfingagjöldum, og er greitt fyrir hvert lið sem sent er til keppni.  Mótagjöld fyrir 6. flokk eru núna kr 7.000 á lið fyrir hvert mót, en 9.000 fyrir lið í 5. flokki.

Frá og með 4. flokki breytist keppnisfyrirkomulag yfir í staka leiki sem dreifast yfir veturinn.

 

Á hverju hausti þarf að skrá iðkendur í skráningarkerfi KR, Nori, en hlekk á það má finna hér á síðunni, og ganga frá greiðslu æfingagjalda.   Það er skilyrði fyrir þátttöku í mótum, að æfingagjald hafi verið greitt.

 

Hraðmót 6. og 5. flokks

Í yngstu flokkunum fer keppni á Íslandsmóti fram í hraðmótum, 5 helgar yfir veturinn hjá 5. og 6. flokki, en 2 – 3 helgar hjá yngstu flokkunum.

Íþróttafélög innan HSÍ skiptast á að halda þessi mót, og njóta mótagjalda sem önnur félög greiða.

Leikið er í deildum, og er leitast við að iðkendur séu ávallt að etja kappi við jafningja sína.  Svo það megi verða, og Íslandsmeistari verð krýndur á sanngjarnan hátt, heldur mótanefnd HSÍ svokallaðan styrkleikalista.  Lið geta þokast upp styrkleikalistann með góðri frammistöðu á móti, og að sjálfsögðu fallið niður listann.  Þetta fyrirkomulag, ásamt því að keppt er í 2 riðlum í hverri deild, þar sem leitast er við að hafa 5 lið í hverjum riðli, getur þýtt að lið sem vann sína deild, keppi í sömu deild á næsta móti, þó það sé sjaldgæft.

Þjálfari tilkynnir lið til keppni, og leitast við að hópurinn samanstandi af nægum fjölda svo 1 – 3 skiptimenn séu til staðar.

Mótshaldari sendir leikjaniðurröðun frá sér um 2-3 vikum fyrir mót, og þá liggur fyrir hvenær barnið þitt á að leika.  Leitast er við að viðvera hvers og eins sé eins stutt og hægt er, og að leikir séu kláraðir í einni ferð.

 

Þegar komið er í 4. flokk.

Í 4. flokki breytist mikið.  Boltinn stækkar, leyfilegt er að nota klístur (harpix), leiktíminn lengist og völlurinn stækkar.

Mesta breytingin er þó að nú ekki lengur leikið í hraðmótum, heldur staka leiki, jafnt yfir veturinn.

4. flokkur leikur aldursskiptur, og ræður lokastaða á styrkleikalista 5. flokks veturinn áður, deildaskipan á yngra ári.  Sama á við eldra árið, lokastaða vorið áður ræður deildaskipan að hausti.

Þó lið barnsins þíns keppi í 2. deild, þarf það ekki að þýða að ekki sé möguleiki á titli.  Að vori keppa efstu lið í 2. deild við  lið í 1. deild um sæti í úrslitakeppni.

 

Framkvæmd leikja í 4. flokki og eldri, kallar á þátttöku sjálfboðaliða.  Foreldrar hafa tekið að sér að manna ritara og tímavarðarborðið.  Langflestum foreldrum sem þetta hafa gert finnst það skemmtilegt, og þetta er góð leið fyrir ykkur foreldra, að taka þátt í íþróttastarfi barnanna.

Foreldrar skipta milli sín leikjum vetrarins.  Með góðri þátttöku er þetta ekki nema 1-3 leikir á foreldri yfir veturinn.

Það er margsannað að með þátttöku í íþróttastarfi unglingsins, og jákvæðri hvatningu, er unglingurinn lengur í íþróttum, og forvarnargildið stóreykst.

 

Fyrirmyndir.

Það er mikilvægt að við foreldrar séum börnum okkar góð fyrirmynd á hliðarlínunni.

Að sjálfsögðu er skemmtilegta að vinna en tapa, en hluti af uppeldi góðra íþróttamanna er að kunna að taka sigri jafnt sem ósigri.

Virðum alla þá sem koma að keppni barna okkar, ekki síst dómara, sem eru oft lítt öfundsverðir af hlutskipti sínu.

Munum að ef okkur finnst í lagi að hrópa að dómurum og véfengja ákvarðanir þeirra, finnst börnum okkar það líka.

 

Share this article with friends