Körfuknattleiksdeild

20 ár liðin í dag frá því að KR-ingar urðu Íslandsmeistarar eftir 10 ára bið

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔25.April 2020

KR hampaði Íslandsmeistaratitlinum árið 2000, fyrsti titill meistaraflokks karla í 10 ár. Liðið var með ungan þjálfara og tefldi fram öflugu liði með góða blöndu af fáeinum reynslumiklum leikmönnum í bland við stóran hóp ungra og efnilegra uppalinn stráka.

Mynd: KR-ingar fagna með formönnum Aðalstjórnar og Körfuknattleiksdeildar

Fyrir tímabilið 1999-2000 urður nokkrar breytingar á leikmannahópi KR en stærstu breytingarnar voru þó að Ingi Þór Steinþórsson sem hafði verið aðstoðarþjálfari hjá spilandi þjálfara, Keith Vassel, tímabilið á undan var nú ráðinn aðalþjálfari liðsins, 27 ára gamall. Jesper Sørensen, danskur bakvörður, hafði gengið til liðs við KR um mitt fyrra tímabil gerði samning um áframhaldandi veru í KR.  Það var happafengur fyrir KR að endurheimta Ólaf Jón Ormsson úr KFÍ og Jónatan Bow frá Skotlandi. Einnig gekk Arnar Kárason til liðs við KR frá Tindastól en átti við töluverð meiðsli að stríða framan af vetri en skipti sköpum í lokinn. Af þeim leikmönnum sem yfirgáfu KR má nefna Eirík Önundarson, Guðna Einarsson, Eggert Maríuson, Marel Guðlaugsson en sárast var þó að sjá á eftir fyrirliða liðsins, Óskari Kristjánsyni sem lagði skónna á hilluna. Í stað þessara leikmanna voru ungir og efnilegir leikmenn tilbúnir að fá veigameira hlutverk, menn eins og Jakob Örn Sigurðarson, Magni Hafsteinsson, Hjalti Kristinsson, Guðmundur Þór Magnússon, Ólafur Már Ægisson og Steinar Kaldal. Aðrir ungir leikmenn sem voru þarna að stíga sín fyrstu skref voru Helgi Már Magnússon, Jóhannes Árnason, Óskar Arnórsson, Snorri B Jónsson og Viktor Birgisson. Allt voru þetta piltar undir tvítugu.  Með þessu var tími breytinga hafinn, byggja átti á ungum og efnilegum leikmönnum í bland við reynslumeiri menn. Keppnistímabilið hófst án bandarísks leikmanns en þegar Keith Vassel var á lausu, eftir stutta dvöl í Frakklandi, var ákveðið að semja við hann að nýju, enda þekkt stærð.

Mynd: Steinar Kaldal og Jesper Winther Sörensen í leik árið 2000

KR var spáð 6. sæti í árlegri spá þjálfara og forráðamann áður en keppnistímabilið hófst og þykir ekki undrum sæta miðað við þær breytingar sem höfðu átt sér stað um sumarið.  Á undirbúningstimabilinu hafði svo Magni slitið krossbönd í leik gegn Fjölni og var hann því úr leik fram í mars.  Fyrsti leikurinn í Epson-deildinni var gegn KFÍ þann 30. september og var það einnig vígsluleikur á nýjum heimavelli KR við Frostaskjól. Árin áður hafði KR verið á nokkrum vergangi hvað varðar heimavöll, leikið í Laugardalshöll, íþróttahúsi Seltjarnarness og síðast í íþróttahúsi Hagaskóla. Fyrstu körfuna í nýjum heimavelli skoraði Atli Freyr Einarsson með þriggjastiga körfu. KR vann opnunarleikinn nokkuð óvænt, Keith var enn ekki kominn og Ólafur Ormsson ekki orðinn gjaldgengur með liði KR vegna mistaka í félagsskiptum hans frá KFÍ.

Mynd: Það var vel mætt í DHL-Höllina og KR-ingar fögnuðu vel og lengi titlinum

Á sama tíma og nýja húsið “DHL-Höllin” var tekið í notkun var fyrsti vefur kkd KR einnig settur í loftið en að honum stóðu Hjalti Már Einarsson, Páll Sævar Guðjónsson og Sverrir Scheving Thorsteinsson. Mikill metnaður var lagður í fréttaflutning, viðtöl og umfjöllun um starf deildarinnar. Í úrslitakeppninni var m.a. bein textalýsing frá öllum leikjum mfl. karla þannig að KR-ingar um allan heim gátu fylgst með sínu liði í beinni útsendingu.

Mynd: KR fagna sigri í Njarðvík. Frá vinstri: Keith Vassell, Jakob örn Sigurðarson, Steinar Kaldal, Ólafur Már Ægisson, Hjalti Kristinsson, Guðmundur Þór Magnússon, Jesper Winther Sörensen og fyrir framan Atli Freyr Einarsson.

Eftir fjórar umferðir var KR með tvo sigra og tvö töp þegar lið Keflavíkur kom í heimsókn í Vesturbæinn. Var það í fyrsta skipti sem KR gat teflt fram bæði þeim Keith og Óla. Sigur vannst, 64-58. Í kjölfarið fylgdu sex sigrar í röð fram að áramótum og toppsæti ásamt því að vera komnir í 8-liða úrslit í bikarnum.  Ingvar Ormarsson hafði tekið fram skónna að nýju fyrir tímabilið en ákvað að henda þeim aftur upp á hillu til að geta einbeitt sér að flugnámi.

Mynd: Leikhlé hjá KR í leiknum gegn Tindastól

Fyrstu tveir leikirnir eftir áramót voru ósigrar gegn Tindastól og KFÍ í deildinni. Jónatan Bow hafði slitið sin undir il og var fjarri góðu gamni þegar KR mætti liði Njarðvíkur í undanúrslitum bikarsins. Leikurinn var leikinn í skugga sviplegs andláts Örlygs Sturlusonar, eins efnilegasta leikmanns sem Ísland hefur átt, sem lést að slysförum einungis viku fyrr. Örlygur hafði skotist á stjörnuhimininn í úrslitakeppninni 1998 þegar Njarðvík lagði KR 3-0 til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og bar Örlygur þar höfuð og herðar yfir aðra á vellinum, einungis 16 ára gamall. Miklar tilfinningar voru í spilinu mánudagskvöldið 24 janúar í Ljónagryfjunni í Njarðvík. KR bar að lokum sigur úr býtum, 84-80 og var þar með komið í bikarúrslitaleikinn gegn Grindavík.

Mynd: Keith Vassell og Steinar Kaldal í baráttu við Alexander Ermolinski

Í bikarúrslitunum saknaði KR tilfinnanlega Jónatan Bow sem enn var frá vegna meiðsla.  KR leiddi í háfleik 30-25 en þegar líða fór á leikinn náði Grindavík yfirhöndinni, KR-ingar fóru illa að ráði sínu gegn svæðisvörn andstæðinganna og fór svo að Grindavík hampaði að lokum titlinum. Lokatölur 59-55, Grindavík í vil. Stigahæstur í liði KR var Keith Vassel með 28 stig og 17 fráköst.

Gengi liðsins í Epson-deildinni var sveiflukennt og endaði liðið í 5. Sæti með 28 stig, 14 sigra og 8 töp en hafði þó endurheimt Bow úr meiðslum og eftir sigra í síðustu tveimur leikjunum var liðið að ná fyrra jafnvægi.  Arnar Kárason var einnig allur að koma til og lék 5 síðustu leiki tímabilsins.

Mynd: Keith Vassell og Magni Hafsteinsson

KR fékk óvæntan liðsstyrk í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn Tindastól en Baldur Ólafsson, sem stundaði nám og lék körfubolta vestanhafs var gjaldgengur í liðið og lék með í seríunni gegn Stólunum. KR vann fyrsta leikinn norðan heiða, 81-78 og slóg komst svo í undanúrslitaeinvígið eftir sigur á leik 2 á heimavelli, 78-70.

Í undanúrslitum biðu svo deildarmeistarar Njarðvíkur, feyknarsterkt lið með KR-inginn Hermann Hauksson innanborðs, auk annara kappa. Baldur var farinn aftur til Bandaríkjanna en eftir fyrsta leik í seríunni, sem Njarðvík vann sannfærandi 84-67, kom annar liðstyrkur frá Bandaríkjunum í formi Jóns Arnórs Stefánssonar. Jón Arnór var þarna 17 ára gamall og hafði leikið með sterku menntaskólaliði Artesia í Los Angeles en hann varð að fara heim vegna þess að þjálfari skólans fór á bakvið reglur um erlenda leikmenn og Jón Arnór því sendur úr landi með hraði, Jón Arnór kom heim og var því löglegur með KR. Jón Arnór skilaði 5 stigum á 12 mínútum í sínum fyrsta meistaraflokksleik með KR er liðið vann Njarðvík 79-64. Liðin skiptust á að vinna næstu heimaleiki og var því skorið um hvort liðið færi áfram í úrslitarimmuna gegn Grindavík, í oddaleik í Ljónagryfjunni þriðjudaginn 4 apríl. KR-ingar komu gríðarlega einbeittir til leiks og leiddu með 13 stigum í hálfleik. Í seinni hálfleik var ljóst hvert stefndi, allir leikmenn KR komust á blað og hömpuðu sigri 78-55.

Mynd: KR-ingar fagna sigri eftir oddaleikinn í Njarðvík

Það liðu tvær vikur milli undanúrslita og úrslitaviðureignarinnar sökum þess hve marga leikmenn KR átti í U-18 ára landsliði Íslands sem lék í undankeppni Evrópumótsins í Þýsklandi, 11. til 15. apríl. Jakob Örn, Jón Arnór, Hjalti Kristins og Helgi Már voru allir í liðinu.

Grindavík hóf úrslitarimmuna á heimavelli og virtust alltaf skrefinu á undan KR-ingum. Þó var munurinn aldrei mikill enda réðust úrslitin á lokasekúndu þegar Pétur Guðmundsson tryggði heimamönnum sigurinn með flautukörfu, 67-64.  Þrátt fyrir ósigurinn var engan bilbug á KR að finna, munurinn á liðinum hafði ekki verið mikill og liðið fullt sjálfstrausts eftir að hafa slegið út sterkt lið Njarðvíkur. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR sagði í viðtali við DV eftir leik að leikmenn hefðu gert sig seka um of mörg mistök sem mætti ekki í úrslitarimmu, hvað þá á útivelli og það ætlaði liðið sér að laga í næsta leik, sem það og gerði.  KR leiddi frá upphafi annars leiksins í Frostaskjólinu, 34-26 í hálfleik og jók svo muninn jafnt og þétt. Þegar upp var staðið vann KR með 28 stiga mun, 83-55, stærri mun en fyrirliðinn Ólafur Jón Ormsson bjóst við. „Ég átti von á að við ynnum leikinn en óraði ekki fyrir að sigurinn yrði jafn stór og raunin varð. Það var allt annað upp á teningnum í kvöld, leikmenn voru tilbúnir, léku góða vörn og sýndu mikla baráttu,“ sagði Ólafur í viðtali við Morgunblaðið að leik loknum en Ólafur átti frábæran leik og skoraði 30 stig.

Mynd: Jón Arnór á vítalínunni og Rauða Ljónið var mjög virkt á þessum tíma

Í þriðja leik, í Röstinni í Grindavík, byrjuðu heimamenn betur. Leiddu í tvígang með 8 stigum í fyrri hálfleik en KR-ingar nýttu breiddina og komu til baka þegar Jón Arnór kom KR yfir í fyrsta skipti 33-32 með þriggja stiga körfu. Vel studdir af fjölmörgum og háværum stuðningsmönnum leiddu KR-ingar með 5 stigum í hálfleik. Seinni hálfleikur var gríðarlega jafn og spennandi, KR leiddi en Grindavík fylgdi þeim eins og skugginn. Þegar sex mínútur voru eftir var staðan jöfn, 67-67 en þá náðu KR-ingar góðum kafla og forystunni sem þeir létu ekki af hendi. Liðið fagnaði vel í leikslok enda einum sigri frá fyrsta Íslandsmeistaratitli í meistaraflokki karla frá 1990. En þjálfarinn sagði mönnum að hafa hægt um sig. „Ég ætla svo sannarlega að vona að okkur takist að klára dæmið í næsta leik en við erum ekki búnir að vinna neitt ennþá, staðan er bara 2-1“, sagði Ingi Þór í viðtali við Morgunblaðið í leikslok.

Mynd: Íslandsmeistarar KR árið 2000. Efsta röð frá vinstri: Hermann Marínó Birgisson, Hjalti Kristinsson, Jesper Winther Sörensen, Jakob Örn Sigurðarson og Jóhannes Árnason. Mið röð frá vinstri: Ingi Þór Steinþórsson þjálfari, Gísli Georgsson formaður KKD KR, Guðmundur Þór Magnússon, Atli Freyr Einarsson, Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Jón Arnór Stefánsson, Martin Hauksson liðsstjóri og Pétur Örn Gunnarsson sjúkraþjálfari. Neðsta röð frá vinstri: Helgi Már Magnússon, Ólafur Már Ægisson, Jonathan James Bow, Keith Christophe Vassell, Ólafur Jón Ormsson fyrirliði, Steinar Kaldal, Arnar Snær Kárason og Martin Hermannsson “aðstoðamaður Matta risa”

Mynd: KR-ingar tolleruðu þjálfara sinn Inga Þór

Það var fjölmennt í KR-heimilinu þriðjudagskvöldið 25 apríl þegar fjórði leikurinn fór fram. Spennan var mikil í fjölmörgum KR-ingum enda áratugs bið eftir titli mögulega á enda. Spennustigið í leikmönnum KR virtist einnig hátt því það voru gestirnir sem voru með undirtökin í upphafi leiks. Tafir urðu á að leikurinn hæfist vegna bilana í ljósabúnaði í íþróttasalnum nýja. Grindvíkingar virtust höndla þetta betur og komu sterkari inn í leikinn, komust í 11 stiga forskot, 9-20. Það tók KR-liðið allan fyrri hálfleik að ná tökum á leik sínum en þeir náðu að minnka muninn  í 3 stig þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 31-34. Ingi Þór stappaði stálinu í leikmenn í hálfleik og það virtist bera árangur því allt annað lið mætti til leiks í síðari hálfleik. KR-ingar skoruðu 14 fyrstu stig hálfleiksins og þó að gestirnir hafi veitt mótspyrnu þá rann þeim þrek og breidd KR-liðsins skilaði sér í 20 stiga sigri, 83-63 og KR-ingar Íslandsmeistarar árið 2000.

Mynd: Ingi Þór Steinþórsson lyftir Íslandsmeistarabikarnum á sínu fyrsta ári sem þjálfari meistaraflokks KR

KR-liðið hafði á að skipa mikilli breidd en alls komu 21 leikmenn við sögu í deild og bikar þetta tímabilið. Samheldnin var mikil sem skilaði sér í að menn vissu sín hlutverk, höfðu trú á verkefninu. Ingi Þór gerði gríðarlega vel á sínu fyrsta tímabili í að leggja áherslu á einfalda hluti og þó sér í lagi varnarleikinn. Hafði sagt sjálfur í viðtali að loknu tímabili að hann hafi notið góðs að góðum ráðleggingum frá sínum elstu leikmönnum, sér í lagi Jónatan Bow og Keith Vassell. Inn í þennan þétta kjarna má ekki gleyma þætti annara einstaklinga sem voru hluti að velgengni vetrarins, sem dæmi liðsstjóranum Martin Haukssyni, allra hugljúfi, sem hafði ungan frænda sinn, Martin Hermannsson sér til halds og trausts. Þá var þáttur sjúkraþjálfarans Péturs Arnar Gunnarssonar ómetanlegur. Hann hafði svo sannarlega í nógu að snúst enda meiðslalistinn langur þennan vetur, auk þess að hafa einstakt lag á að halda húmórnum og léttleikanum í fyrirrúmi. Utan klefans og vallar var auðvitað styrk stjórn, leidd af formanninum Gísla Georgssyni, sem gerði sitt í að skapa gott umhverfi og lagði traust sitt á ungt lið og ungan þjálfara.

Mynd: Ólafur Jón Ormsson fyrirliði KR lyftir bikarnum 25. apríl 2000.

Sigur KR árið 2000 var 9. Íslandsmeistartitill félagsins í meistaraflokki karla og rauf 10 ára einokun Suðurnesjaliðanna. Hann var einnig fyrsti titill liðs sem hafði ekki heimavallarrétt í neinni seríu. Nýr heimavöllur reyndist liðinu sterkur en KR vann 14 af 18 leikum á heimavelli þennan vetur, þar af alla í úrslitakeppninni.  Að móti loknu var Ólafur Jón Ormsson valinn leikmaður tímabilsins af leikmönnum Epson deildarinnar og Keith Vassel valinn besti leikmaðurinn af Morgunblaðinu.

Mynd: Guðmundur Þór Magnússon handleggur Íslandsbikarinn

Kjarnin úr þessu liði hélst áfram næstu tvö tímabil og gerði atlögu að Íslandsmeistaratitlinum en varð á vegi gríðarlega sterks liðs Njarðvíkur. Þarna fengu þó smjörþefinn leikmenn sem áttu eftir að ná langt á erlendri grundu og vinna titla síðar fyrir KR.

Þó tuttugu ár sé liðin frá þessu tímabili eru enn þó nokkrir leikmenn að hjá KR, en þeir Jakob, Helgi og Jón Arnór léku allir síðastliðinn vetur, undir stjórn Inga Þórs með Martin Hauksson sem liðsstjóra.

Mynd: Ólafur Jón og Steinar fagna titlinum

Íslandsmeistarar KR 2000:

Leikmenn:

Arnar Snær Kárason

Atli Freyr Einarsson (varafyrirliði)

Baldur Ólafsson

Guðmundur Þór Magnússon

Helgi Már Magnússon

Hjalti Kristinsson

Ingvar Ormarsson

Ingvaldur Magni Hafsteinsson

Jakob Örn Sigurðarson

Jesper Winther Sörensen

Jóhannes Árnason

Jón Arnór Stefánsson

Jónatan Bow

Keith Vassell

Ólafur Jón Ormsson (fyrirliði)

Ólafur Már Ægisson

Óskar Örn Arnórsson

Snorri B. Jónsson

Sveinn Blöndal

Steinar Kaldal

Viktor B Birgisson

Þjálfari: Ingi Þór Steinþórsson

Liðsstjóri: Martin Hauksson

Aðstoðarmaður liðsstjóra: Martin Hermannsson

Sjúkraþjálfari: Pétur Örn Gunnarsson

Mynd: Gísli Georgsson formaður körfuknattleiksdeildar KR lyftir bikarnum

Stjórn kkd KR 1999-2000

Formaður: Gísli Georgsson

Varaformaður: Magnús Guðmundsson

Gjaldkeri: Birgir Hákonarson

Ritari: Guðmundur Guðmundsson

Áslaug Pálsdóttir meðstjórnandi

Óttar Magni Jóhannsson meðstjórnandi

Sæmundur Karl Jóhannesson meðstjórnandi

Varastjórn:

Kolbeinn Pálsson

Kristinn Vilbergsson

Páll Sævar Guðjónsson

Mynd: Þjálfarinn og Fyrirliðinn með Íslandsmeistarabikarinn

Mynd: Greinina ritaði Atli Freyr Einarsson

 

Deila þessari grein

Tengdar greinar

Sumarnámskeið í körfu

Sumarnámskeið í körfu

Sumarnámskeið í körfu er klárt en Brynjar Þór Björnsson mun stýra því. Skráning fer fram á kr.felog.is

Lesa meir