Körfuknattleiksdeild

30 ár Íslandsmeistaratitli karla 1990

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔07.April 2020
30 ár Íslandsmeistaratitli karla 1990

Á þessum degi fyrir 30 árum varð karlalið KR Íslandsmeistari. Hér er samantekt og viðtöl en KR sigraði lið Keflavíkur 3-0:

Ég var búinn að bíða lengi eftir þessum
KR-ingar unnu Íslandsmeistaratitilinn í karlakörfunni tvö ár í röð við lok áttunda áratugarsins en voru búnir að bíða eftir honum í ellefu ár þegar kom að 1989-90 tímabilinu. Ungverski þjálfarinn László Németh var þarna á sínu öðru tímabili með liðið og hafði farið með það alla leið í lokaúrslitin árið á undan.

Nú var hann hins vegar búinn að fá hinn frábæra rússneska Anatolij Kovtum til liðsins auk þess sem Axel Nikulásson kom frá Keflavík og leikreyndar stjörnur KR-liðsins eins og þeir Páll Kolbeinsson, Guðni Guðnason og Birgir Mikaelsson mættu reynslunni ríkari frá árinu áður.

KR-liðið var yfirburðarlið á þessu tímabili, vann 90 prósent leikja sinna á Íslandsmótinu og alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni. KR vann 3-0 sigur á Keflavík í lokaúrslitunum og hefndi fyrir tapið á móti Keflavík í oddaleik árið á undan.

„Ég var búinn að bíða lengi eftir þessum — allt of lengi. Markmið okkar í vetur var að gera betur en í fyrra. Það tókst. Það sem við höfum umfram Suðurnesjaliðin er að við erum mjög sterk liðsheild — þeir byggja meira á einstaklingum. Ég hafði á tilfinningunni í dag, og jafnvel

í leiknum í Keflavík, að þeir hefðu sætt sig við tap. Þeir voru alltaf á eftir okkur,” sagði Guðni Guðnason, fyrirliði KR, við Morgunblaðið eftir að hann hafði hampað Íslandsbikarnum.

„Sigurinn var mjög sætur. Sætari en í fyrra? Já, vegna þess að þessi vannst í dag,” sagði Axel Nikulásson við Morgunblaðið eftir leikinn en hann varð einmitt meistari með Keflavík árið á undan. Axel var sá eini í leikmannahópi KR sem hafði fengið að hampa hinum glæsilega Íslandsbikar, „Að mínu mati erum við með besta útlendinginn [Anatolij Kovtum],besta leikstjórnandann [Páll Kristinsson] og besta þjálfarann [Laszlo Nemeth]. Svo þegar við erum með menn eins- og Bigga [Birgi Mikaelsson], Guðna [Guðnason] og og Matta [Matthías Einarsson] þá getum við ekki annað en náð góðum árangri,” sagði Axel.

KR Íslandsmeistari 1990

Úrvalsdeild karla í körfubolta
Dagssetning: 7.apríl
Staður: Íþróttahúsið á Seltjarnarnesi
Þjálfari: Laszlo Nemeth
Fyrirliði: Guðni Ó. Guðnason
Árangur: 23 sigrar og 3 töp í 26 deildarleikjum
5 sigrar og 0 töp í 5 leikjum í úrslitakeppni
90 prósent sigurhlutfall (28-3)
Atkvæðamestir í lokaúrslitunum:

Páll Kolbeinsson 53 stig (17,7 í leik)
Guðni Ó. Guðnason 44 stig (14,7)
Anatolij Kovtum 41 stig (13,7)
Birgir Mikaelsson 35 stig (11,7)
Axel A Nikulásson 31 stig (10,3)
Matthías Einarsson 21 stig (7,0)

Fréttin er tekin af Visir.is

Deila þessari grein

Tengdar greinar

Sumarnámskeið í körfu

Sumarnámskeið í körfu

Sumarnámskeið í körfu er klárt en Brynjar Þór Björnsson mun stýra því. Skráning fer fram á kr.felog.is

Lesa meir