Körfuknattleiksdeild

30 sigurleikir í röð og sæti í Domino´s tryggt!

📁 Körfuknattleiksdeild, Meistaraflokkur kvenna 🕔11.April 2018
30 sigurleikir í röð og sæti í Domino´s tryggt!

 

KR tryggði sér sæti í úrvalsdeild á komandi leiktíð með öruggum sigri á Fjölni í Vesturbænum í kvöld. Kvennaliðið hefur haft mikla yfirburði í fyrstu deildinni í vetur, sigraði í öllum 24 leikjum deildarkeppninnar, sló síðan Grindavík út í þremur leikjum og nú Fjölni.

Ljóst var að Fjölnir þurfti á sínum besta leik að halda til að halda voninni um að komast upp á lífi. KR-ingar voru hins vegar staðráðnir í að halda sigurgöngunni í vetur óslitinni og tóku afgerandi forustu þegar í upphafi. Þriggja stiga nýting KR-liðsins var framúrskarandi í upphafi á meðan ekkert gekk upp hjá Fjölni. Í lok fyrsta leikhluta var forusta KR orðin 16 stig, 26:10, rúmlega helmingur þriggja stiga skota liðsins hafði ratað ofan í körfuna, en aðeins tæp 30% tveggja stiga skota. Þessar tölur áttu eftir að snúast við þegar leið á leikinn og endaði liðið með 29% þriggja stiga nýtingu og 55% í tveggja stiga skotum, sem er öllu eðlilegra.

Munurinn hélt áfram að aukast í öðrum leikhluta og í hálfleik stóðu leikar 51:26. Fjölnir náði sér aðeins á strik í þeim þriðja og vann hann með þremur stigum, en það var skammgóður vermir því að KR vann fjórða leikhlutan með 12 stigum og lauk leiknum með 85:51 sigri.

Alexandra Petersen fór hamförum í KR-liðinu og vildi greinilega sýna fram á að full ástæða væri til að reyna að halda í hana næsta leiktímabil í deild hinna bestu. Hún var með þrefalda tvennu, 29 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar.

Perla Jóhannsdóttir lék af miklu öryggi, skoraði 13 stig, tók sjö fráköst og var með fjórar stoðsendingar.

Eygló Kristín Óskarsdóttir var einnig öflug, skoraði 14 stig og tók jafn mörg fráköst. Hún nýti færi sín vel, skoraði úr sjö skotum af tíu.

Ástrós Lena Ægisdóttir skoraði 11 stig, tók fimm fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Það er til marks um mikilvægi hennar fyrir liðið að á meðan hún var inni á vellinum skoraði liðið 32 stigum meira en andstæðingurinn.

Unnur Tara Jónsdóttir skoraði sjö stig, tók 10 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir skoraði sex stig, tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Jenný Lovísa Benediktsdóttir var með þrjú stig, tvö fráköst og tvær stoðsendingar og norski leikmaðurinn Kristin Skatun Hannestad var með tvö stig og tvö fráköst. Þóra Birna Ingvarsdóttir átti góða innkomu, spilaði þétta vörn og tók eitt frákast.

Í liði Fjölnis var McCalle Feller stigahæst með 17 stig og Berglind Karen Ingvarsdóttir kom næst með 12 stig. Anika Linda Hjálmarsdóttir var sterk undir körfunni og skoraði 10 stig, en Erla Sif Kristinsdóttir skoraði fjögur stig og náði sér ekki á strik.

Sigurinn var góður endir á frábæru keppnistímabili þar sem KR-liðið hefur sýnt að það á fullt erindi í Domino‘s-deildina. Liðið er skipað öflugum leikmönnum í öllum stöðum og verður spennandi að fylgjast með því á komandi keppnistímabili.

Í lok leiks var vel fagnað og afhenti Guðrún Kristmundsdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar KR, leikmönnum og Benedikt Guðmundssyn i þjálfara og Halldóri Karli Þórssyni aðstoðarþjálfara rauðar rósir í leikslok.

TIL HAMINGJU STELPUR!

 

 

Deila þessari grein