Körfuknattleiksdeild

Áfram á toppnum eftir sigur á Haukum

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔09.January 2019

Kiana Johnson bar KR-liðið á herðum sér þegar það sótti tvö stig í Hafnarfjörðin í kvöld og lagði Hauka með 80 stigum gegn 70.

Með sigrinum hélt KR tveggja stiga forskoti sínu í úrvalsdeild kvenna í körfunni, en Keflavík og Snæfell, sem bæði sigruðu sína leiki, narta í hælana á Vesturbæjarliðinu og Valur heldur áfram að nálgast toppliðin eftir 40 stiga sigur á Skallagrími.

KR tók forustu strax í upphafi leiks og létu hana aldrei af hendi. Haukar létu KR hins vegar hafa verulega fyrir sigrinum og var Lele Hardy oft erfið viðureignar. Allt KR-liðið spilaði góða vörn í leiknu, sérstaklega í fyrsta leikhluta þegar grunnurinn var lagður að sigrinum. Náðu Haukar aðeins að skora níu stig í leikhlutanum á meðan KR skoraði 22. Haukum tókst að saxa á forskotið í öðrum leikhluta og ekki hjálpaði KR að Kiana var komin með þrjár villur og þurfti að sitja á bekknum drjúgan hluta hans fyrir vikið. Þegar Haukar höfðu minnkað muninn í þrjú stig, 25:28, hafði Benedikt Guðmundsson hins vegar fengið nóg, tók leikhlé og setti Kiönu síðan inn á aftur. KR tókst að auka muninn aftur og í hálfleik var staðan 30:37.

 Mynd: KR liðið hefur gert frábæra hluti

Seinni hálfleikur breyttist smám saman í einvígi milli Kiönu og Lele Hardy, besta leikmanns Hauka, en þótt heimaliðinu tækist nokkrum sinnum að komast upp að KR tókst gestunum ávallt að svara fyrir sig og auka muninn á ný. Kiana og Orla O‘Reilly héldu sóknarleik KR uppi. Saman voru þær með 61 stig af 80 stigum KR. Vilma Kesänen bætti við átta stigum, en íslensku leikmenn liðsins hafa oft verið atkvæðameiri en í kvöld.

Kiana skoraði 35 stig í leiknum, tók 16 fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum. Spilamennska Kiönu var oft með ólíkindum, hún virðist geta farið í gegnum vörn andstæðinganna að vild og hefði hæglega getað verið með þrefalda tvennu hefðu samherjar hennar nýtt sendingar hennar betur. Í ofanálag skoraði hún úr öllum 14 vítunum sínum.

Orla var með 26 stig, sex stig og sex stoðsendingar, Vilma skoraði átta stig og gaf tvær stoðsendingar, Unnur Tara Jónsdóttir skoraði sex stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar, Perla Jóhannsdóttir var með fimm stig, eitt frákast og tvær stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir var með þrjú fráköst og Ástrós Ægisdóttir var með eitt frákast og eina stoðsendingu.

 Mynd: Orla O´Reilly var mögnuð í kvöld

Í liði Hauka var Hardy með 30 stig og 18 fráköst, hollenski leikmaður liðsins, Klaziena Gluijt var með 14 stig eins og Þóra Kristín Jónsdóttir.

Eftir leikinn eru Haukar í næstneðsta sæti deildarinnar með átta stig. Næsti leikur KR er gegn Stjörnunni í DHL-Höllinni miðvikudaginn 16. Janúar, kl. 19.15.

Mynd: Kiana Johnson fór á kostum í Hafnarfirði í kvöld

Deila þessari grein