Körfuknattleiksdeild

Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfar í KR

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔17.July 2007

Ágúst Björgvinsson, sem þjálfað hefur kvennalið Hauka undanfarin þrjú ár, mun þjálfa yngri flokka hjá KR næsta vetur ásamt því að vera aðstoðarþjálfari Benedikts Guðmundssonar í meistaraflokki karla. Ágúst styrkir þann öfluga hóp af þjálfurum sem fyrir starfa hjá deildinni. Til gamans má geta að með Ágústi starfa 3 af 5 unglingalandsliðsþjálfurum KKÍ en fyrir eru þeir Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari yngri flokka KR, og Benedikt þjálfari meistaraflokks karla.


Mynd til hægri tekin af Stefáni Borgþórssyni stebbi@karfan.is :

Ágúst Sigurður Björgvinsson færir sig úr kvennastarfinu og fer í karlaboltann.


Böðvar Eggert Guðjónsson formaður sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Fyrir hönd körfuknattleiksdeildar KR er það okkur mikil ánægja að tilkynna að Ágúst Björgvinsson hefur komist að samkomulagi við stjórn deildarinnar að hefja störf hjá KR. Ágúst þarf vart að kynna fyrir íþróttaunnendum en hann hefur undanfarin ár stýrt hinum sigursæla meistaraflokki kvenna hjá Haukum. Þekking og menntun Ágústar á íþróttinni mun enn frekar styrkja hið öfluga þjálfarateymi yngri flokka KR sem að telur m.a. Benedikt Rúnar Guðmundsson og Inga Þór Steinþórsson. Það hefur verið markmið deildarinnar að auka enn frekar gæðin í yngri flokka starfi KR og er þetta enn eitt skrefið í þeirri átt. Þeir sem að deildinni standa telja það skyldu sína að bjóða yngri flokka iðkendum bestu mögulegu þjálfara og er Ágúst mikilvægur hlekkur í þeirri keðju.

 

Ennfremur mun Ágúst aðstoða Benedikt Rúnar Guðmundsson við þjálfun meistaraflokks karla en þar eiga KR Íslandsmeistaratitil Iceland Express deildar karla titil að verja. Finnur Freyr Stefánsson mun áfram sinna sínu starfi hjá Benedikt en hann hefur verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks síðustu þriggja ára, það er því vel mannað starfsliðið í meistaraflokk.

 

Heimasíðan tók Ágúst tali og spurði hann nokkra klassískra spurninga:

 
 

Hvers vegna varð KR fyrir valinu?

“Markmiðið hjá mér var að komast út í þjálfun hjá liði sem er í Euroleague. Ég varð að láta Haukaliðið af hendi til þess að freista gæfunar í að komast út. Í byrjun júlí kom það í ljós að ég fengi ekki stöðuna hjá L.Rytas eins og ég var að vonast eftir. Benni hafði fljótlega sambandi við mig og bað mig um að koma og vera með honum í mfl. og þjálfa yngri flokka samhliða því. Við Benni þekkjumst vel því við höfum þjálfað saman í unglingalandsliðunum. Það má segja að Benni sé aðalástæðan fyrir því að ég hef áhveðið að koma í KR. Það skemmir heldur ekki fyrir að KR er klárlega einn öflugasti klúbbur í körfubolta á Íslandi í dag. Það eru frábær umgjörð í KR og þar er mikið af góðu fólki.”

 

Hvað er mest spennandi við komandi körfuboltatímabil i KR?

“Það er virkilega spennandi að koma inn í þessa frábæru umgjörð sem er í KR. KR er líka nánast komið með nýtt hús því parketið gerbreytir allri aðstöðunni í DHL-Höllinni. Það verður líka virkilega krefjandi verkefni að halda KR á toppnum og að fá að takast á við Evrópukeppnina ekki sist þar sem KR er eini fullrúi Íslands í Evrópu þennan veturinn.”

 

Hver eru markmið þín hjá klúbbnum?

“Ég hef alltaf sett mér há markmið og það verður engin undantekning á því hjá KR. Ég legg alltaf mikla áherslu á undirstöðuþjálfun í yngri flokkunum og reyni að virkja áhugann hjá krökkunum. Í meistaraflokknum er markmið klárt því þar vil ég sjá titla koma í hús.”

 


Heimasíðan heyrði í Benedikt og spurði hann út í þessa ráðningu:
“Ég hitti Gústa á Landsmótinu og hann vissi þá ekki hvar hann yrði að þjálfa næsta vetur. Ég viðraði þá hugmynd að hann myndi koma til okkar og tæki nokkra yngriflokka og yrði mér innan handar með meistaraflokk karla. Hann tók strax vel í þessa hugmynd og nokkrum dögum seinna tjáði hann mér að hann væri klár í slaginn. Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir okkur KR-inga sem leggjum mikinn metnað í að bjóða iðkendum okkar upp á faglega og góða þjálfun. Ég hlakka til að fá hann með mér í meistaraflokinn og verður hann í ákveðnum verkefnum þar. Við Gústi höfum unnið áður saman en hann var aðstoðarþjálfari hjá mér fyrir nokkrum árum hjá drengjalandsliðinu og höfum við verið í góðu sambandi síðan. Það eru fáir duglegri og jafn metnaðarfullir og hann. Síðan þá hefur hann náð frábærum árangri með kvennalið Hauka og sannað sig í þessu starfi”

 

Körfuknattleiksdeild KR býður Ágúst hjartanlega velkominn í vesturbæinn.

Deila þessari grein