Körfuknattleiksdeild

Bumban lagði Leikni

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔16.March 2019

Aðeins 6 leikmenn Bumbunnar voru meldaðir til leiks á sérstaklega erfiðri tímasetningu leiks Leiknis og Bumbunnar. Leikurinn fór fram kl 21 á föstudagskvöldi og leikmannahópur KR átti erfitt uppdráttar enda mikið um árshátíðir, viðskiptafundi og gleði á þessum tíma vikunnar alla jafna.

Sjöundi maðurinn, Eldur Ólafsson, svaraði kallinu og lagði frá sér steikarhnífinn og mætti 3 mínútum eftir að leikurinn var flautaður á til að aðstoða bræður sína í baráttunni.

Leiknismenn komust yfir og leiddu leikinn fyrstu 7 mínútur hans enda voru þeir búnir að hita vel upp og voru til alls líklegir. Pálmi Freyr hafði ekki húmor fyrir því og setti 13 stig í röð í 1. leikhluta og koma Bumbunni yfir. Hann ásamt órökuðum Skarphéðni Ingasyni og Ellert Arnarsyni sáu um stiga skorið fyrir KR í fyrri hálfleik og léku þeir við hvurn sinn fingur, vel studdir af bræðrum sínum þeim Jóhannesi, Halldóri, Tískó og Eldi. Samtals skoruðu þremenningarnir 46 af 50 stigum KR-inga í fyrri hálfleik sem skilaði sér í 7 stiga forskoti 43-50.

Bumbumenn gengu aldrei þessu vant til klefa síns í hálfleik og getur sá er hér ritað aðeins giskað á hárblásturinn sem þeir fengu frá Pavel Ermolinski, þjálfara liðsins því það var ekki að sökum að spyrja, Buman valtaði yfir Leiknismenn í 3. leikhluta 17-30 og staðan 60-80 þegar sá fjórði hófst.

Á þessum tímpunkti vakti það athygli fréttaritara að leikmenn Leiknis voru farnir að rífast mikið innbyrðis og tóku mótlæti því sem KR-ingar veittu þeim vægast sagt illa. Fór það greinilega fyrir brjóstið á Bumbumönnum sem eru þrátt fyrir allt, “lovers, not fighters” og gáfu þeir greinilega eftir og hleyptu Leiknis-mönnum inn í leikinn.

Kom þá að þætti Jóhannesar Árnasonar sem hafði látið lítið fara fyrir sér í sóknarleik KR-inga, hann setti stóran þrist með mann í andlitinu í stöðunni 78-82 og stal svo boltanum eftir glæslilega “full court” pressu og lagði boltan ofaní með vinstri hendi. Ekki hætti hann þó þar heldur toppaði annars góðan leik sinn með því að blokka Dzemal Raba (2,11m) center Leiknismanna í næstu vörn og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Bumbumenn eftir það.

Tölfræði KR-inga var athyglisverð í kvöld en 5 af þeim 6 leikmönnum sem reyndu þriggja stiga skot voru með 100% nýtingu. Skarphéðinn átti stórleik og endaði með 35 stig, 10 fráköst, auk þess að vera 15/15 í vítum. Ellert var nálægt þrennunni með 12 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar, 2 stolna. Pálmi átti frábæran dag og skoraði 29 stig og gaf 3 stoðsendingar (óvart). Sérstakt hrós fá þeir Eldur og Tískó (Addi Nike, Árni Pilot, Árni Árnason), en þeir hafa lítið getað verið með í vetur, Árni sökum meiðsla en Eldur er með gullgrafaraæði. Halldór skilaði sínu.

Jóhannes lauk leik með um 10 stig, 4 stolna, 4 stoðsendingar og eitt blokk. Gerði nákvæmlega það sem þurfti þegar á þurfti að halda. Auk þess var hann eini leikmaður kvöldsins sem fékk þjálfarastig.

Pavel stjórnaði leiknum af stakri prýði, tók leikhlé rétt áður en Bumbur urðu bláar á vörunum og fékk hann líka þjálfarastig.

Bumban hefur ekki tapað leik á þessu ári og eru til alls líklegir. Kæmi ekki óvart að Ingi sé að horfa til þess að taka 1-2 leikmenn í viðbót upp fyrir rimmuna gegn ÍBK, sem hefst í næstu viku.

Deila þessari grein

Tengdar greinar