Fréttir á KR.is

Ferskt viðtal við Pavel

📁 Fréttir á KR.is, Körfuknattleiksdeild, Meistaraflokkur karla 🕔10.January 2018

Þú misstir af nokkrum leikjum í upphafi tímabils, hver er staðan á þér, ertu kominn í toppstand?

Ég er í góðu standi núna. Kom vel undan sumrinu með landsliðinu og vissulega leiðinlegt að meiða sig en blessunarlega var þetta ekki alvarlegt. Ég náði síðustu leikjum fyrir jól og fann ekkert fyrir þessu þannig að ég er í toppmálum.

Þið Jón Arnór hafið undanfarin ár rekið tvær verslarnir Kjöts og Fisks, framúrskarandi verslanir sem enginn unnandi góðs hráefnis og matar ætti að láta framhjá sér fara. Hvernig gengur að sameina atvinnurekstur og körfuboltann?

Við erum varla fyrstu leikmennirnir í íslenskum körfubolta sem þurfum að vinna. Það er fínt að hafa eitthvað annað í lífi sínu sem drífur þig áfram og við erum heppnir að við fundum eitthvað sem við höfum áhuga á. Við höfum blessunarlega mikið af frábæru starfsfólki með okkur sem bera þungann á þessu og KR hefur líka sýnt okkur mikinn skilning í gegnum tíðina.

Eftir tvo tapleiki í röð gegn Haukum og Grindavík sögðu „sérfræðingarnir“ í Körfuboltakvöldi að KR-liðið væri einfaldlega ekki nægilega gott til að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í ár. Í kjölfarið unnust 5 leikir í röð, þar á meðal afgerandi sigrar í Keflavík,  gegn Tindastól á heimavelli og í Njarðvík í bikarnum. Er þetta „suð“ sem þið verðið ekki varir við eða kveikir svona tal í mönnum?

Það er alltaf eitthvað “suð” í kringum liðið okkar og hefur alltaf verið. Þegar allt kemur til alls er árangur liðsins það eina sem skiptir máli. Það er langt síðan að við lærðum að það koma góðir kaflar og það koma slæmir kaflar. Og við höfum líka lært hvernig á að bregðast við mismunandi aðstæðum og skila árangri. Við höfum tæklað allar mögulegar hindranir síðustu ár og staðið uppi sem besta liðið og þangað til að það breytist er engin ástæða til þess að hlusta á utanaðkomandi athugasemdir og hugmyndir. En íþróttir væru mjög leiðinlegar ef það er engin umræða, engar hetjur og engir skúrkar. Á Coutinho að vera á vængnum hjá Liverpool? Verður Tiger Woods bestur aftur? Er körfuknattleiksdeild KR búin?

En þegar velgengnin er svona mikil eins og þú hefur upplifað undanfarin ár með KR, hvað er það sem hvetur menn áfram leik eftir leik, tímabil eftir tímabil?

Það hefur verið áhugavert ferli. Fyrst var þetta ósvikin vilji til að vinna. Svo breyttist þetta í létti yfir að tapa ekki. Núna er þetta orðið eitthvað annað. Við skiljum allir að við erum hluti af einhverju sérstöku og höfum tækifæri til að bæta við árangur liðsins enn frekar. Það er næg mótivering fyrir okkur að vita að við getum búið til eitthvað sem fer í sögubækurnar, að okkar lið verði borið saman við önnur lið sem hafa skarað fram úr í gegnum árin.

Fyrstu deildar lið Breiðabliks er mótherji okkar í undanúrslitum. Þeir áttu (eðlilega) í miklum erfiðleikum með fyrnasterkt lið Bumbunnar í 16-liða úrslitum og unnu svo Hött á útivelli í 8-liða. Er þetta svolítið endurtekið efni frá því fyrra, þar sem Valsmenn voru sýnd veiði en langt frá því að vera gefin?

Þetta er mjög persónulegur leikur fyrir mig. Sem fyrrum liðsstjóri KR Bumbunar (axlaði ábyrgð og steig til hliðar eftir tapið) hef ég harma að hefna. Við lentum í hörkuleikjum við tvö 1. deildar lið í bikarnum í fyrra og það sýnir bara að það getur allt gerst. Það er bara þannig að þú þarft bara að eiga einn slæman dag í bikarnum og þú ert dottinn út. En ég held að við lærðum okkar lexíu og munum nálgast þennan leik á réttan hátt.

Í hinum undanúrslitunum eigast við Haukar og Tindastóll, tvö af heitari liðum deildarinnar. Hvort liðið er líklegra til að fara í bikarúrslitin?

Það er engin leið að segja til um það. Tvö lið sem eru vissulega að spila mjög vel og eru á siglingu. Tindastóll er stabilt lið sem ætti að vinna ef bæði lið spila af eðlilegri getu. Hinsvegar er Haukaliðið líklegra til að detta á leik þar sem þeir eru heitir og allt að ganga upp, sem er mjög verðmætt í svona leikjum sem byggjast oftast upp á stemningu. Þetta er algjör 50/50 leikur, eða kannski verður þetta bara rúst, ég veit ekki…

 

 

 

 

Deila þessari grein