Körfuknattleiksdeild

Formannspistill

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔08.January 2018

Kæru KR-ingar
Í ár eru bikarúrslitin haldin í fyrsta sinn í janúar. Þessi nýbreytni er vegna landsleikjahlés sem er nú í fyrsta sinn fellt inn í keppnistímabil körfunnar. Í fyrra var tekið upp það fyrirkomulag að spila bæði undanúrslit og úrslit bikarsins í Laugardalshöll yfir helgi. Þetta er fjórða árið í röð sem við komumst í úrslit eða undanúrslit með karlaliðið. Við höfum unnið bikarmeistaratitilinn undanfarin tvö ár og stefnum að sjálfsögðu á að taka titilinn þriðja árið í röð. Meistaraflokkur karla hefur frá árinu 2000 þrisvar sinnum orðið bikarmeistarar og átta sinnum hampað Íslandsmeistarabikarnum frá árinu 2000. Meistaraflokkur kvenna hefur á sama tíma orðið þrisvar sinnum Íslandsmeistarar og bikarmeistarar í þrígang. Undanfarin ár hefur meistaraflokkur kvenna spilað í 1. deild eftir að sú ákvörðun var tekin á haustdögum 2015 að taka liðið niður um deild og fara á fullt í að byggja upp öflugt kvennastarf með það í huga að búa til meistaraflokk sem væri að meginhluta skipaður stúlkum sem aldnar væru upp í KR. Afrakstur þess er nú að skila sér þar sem meistaraflokkurinn trónir í 1. sæti í 1. deild og er 6 stigum ofar en næsta lið.
Sannkölluð gullöld hefur ríkt hjá meistaraflokki karla undanfarin ár og er stefnan þar að sjálfsögðu tekin á fimmta Íslandsmeistaratitilinn í röð á vormánuðum. Það hefur engu liði á Íslandi tekist frá því að núverandi fyrirkomulag á deildinni var tekið upp. Yngri flokkarnir okkar hafa einnig verið iðnir við að sanka að sér titlum. Deildin okkar hefur stækkað og dafnað undanfarin ár og hefur iðkendafjöldinn vaxið. Við sem komum að starfi deildarinnar höfum líka verið að vinna að því að styrkja innviðina og á nýju ári kemur út handbók fyrir þjálfara körfuboltadeildarinnar. Þessi handbók er að mestu leyti sprottin úr kolli Finns Freys meistaraflokksþjálfarans okkar sem hefur áralanga reynslu af þjálfun og er einn sigursælasti þjálfari landsins. Í haust kom Benedikt Rúnar aftur heim til deildarinnar og tók m.a. við meistaraflokki kvenna. Benni er einn af reyndustu þjálfurum landsins og er koma hans mikill fengur fyrir deildina og bætist þar í flokk frækinna þjálfara KR. . Við vinnum líka að því að efla starf yngri flokkanna okkar og stefnan er að gera umgjörð leikja hjá þeim líkari því sem gerist hjá meistaraflokkum. Mikill fjöldi sjálfboðaliða kemur að starfi deildarinnar og vinna þeir ómetanlegt og óeigingjarnt starf t.d. við að keyra keppnislið út á land, afgreiða í sjoppu, sjá um uppákomur og svo mætti lengi telja. Hafi þeir allir bestu þakkir fyrir.
Ég hvet alla KR-inga til að mæta á undanúrslitaleikinn á móti Breiðabliki sem haldin verður 10. janúar næstkomandi kl. 17. Við verðum með forsölu á leikinn þegar við tökum á móti Stjörnunni næstkomandi sunnudag kl 19:15 og einnig á þriðjudeginum 9. janúar frá kl. 17-19.
Með KR kveðju


Guðrún Kristmundsdóttir
Formaður körfuboltadeildar KR

Deila þessari grein