Körfuknattleiksdeild

Ingi Þór aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔26.August 2008

Ingi Þór Steinþórsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Ingi er fyrrum aðalþjálfari liðsins og gerði það að Íslandsmeisturum árið 2000. Hann hefur undanfarin ár einbeitt sér að yngri flokka þjálfun hjá KR og þjálfað einnig yngri landslið.


Mynd: Ingi Þór Steinþórsson mun aðstoða Benedikt í vetur.

Myndina tók nonni@karfan.is


Ingi Þór hefur þjálfað yngri flokka KR síðan 1989. Keppnistímabilið 1998 – 1999 var hann aðstoðarmaður Keith Vassel hjá meistaraflokki en tók við liðinu árið eftir og gerði það að Íslandsmeistarum á sínu fyrsta ári. Hann stjórnaði meistaraflokki tvö ár í viðbót þar til Herbert Arnarson tók við starfi hans. Finnur Stefánsson hefur verið aðstoðarþjálfari Benedikts undanfarin tvö ár en hann er einnig aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna. Finnur mun halda áfram að þjálfa yngri flokka KR enda öflugur þjálfari.Benedikt Guðmundsson var að vonum ánægður með að fá Inga til liðs við sig. “Það er frábært að fá eins öflugan mann og Inga til að taka við af Finni. Við Ingi höfum þekkst síðan við vorum með bleyjur og alist nánast upp saman. Ingi hefur mikla reynslu og þekkingu í þjálfun og er einn sá duglegasti og nánast ómissandi í KR keðjunni. Við höfum oft unnið saman og þekkjum hvorn annan vel. Ingi mun sjá um video vinnuna fyrir og eftir leiki og dæla í mig upplýsingum um mótherja og okkur sjálfa”, sagði Benedikt. Hann vildi einnig þakka Finni Stefánssyni fyrir vel unnin störf. “Framlag Finns undanfarin tvö ár hefur verið ómetanlegt og ég veit að ég get alltaf leitað til hans”.


Frétt af visir.is

Deila þessari grein