Körfuknattleiksdeild

Kafsigldar í Keflavík

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔20.February 2019

KR átti lítið í Keflavík í toppslag 21. umferðar í Dominosdeildar kvenna í körfubolta í kvöld. Leikurinn var reyndar jafn framan af og í hálfleik var munurinn aðeins eitt stig 38-37, en Keflavík tók öll völd á vellinum í seinni hálfleik og vann að lokum öruggan 32 stiga sigur, 91:59.

Með ósigrinum höfðu liðin sætaskipti á toppi deildarinnar. Keflvíkingar verma nú toppsætið og KR er í öðru sæti. Sigri Valur Snæfell á morgun gæti það þýtt að KR verði í þriðja sæti eftir umferðina.

Leikurinn fór rólega af stað og var báðum liðum fyrirmunað að koma boltanum í körfuna fyrstu mínúturnar. KR var yfir eftir fyrsta leikhluta, 14:17, og í hálfleik var staðan 38:37 fyrir Keflavík. Í þriðja leikhluta voru Keflvíkingar nánast einráðir á vellinum, skoruðu 27 stig á meðan KR skoraði aðeins 10. Sama einstefnan var í fjórða leikhluta.

Orla O‘Reilly reyndi að draga vagninn fyrir KR og sýndi sérstaklega góða takta í fyrri hálfleik. Kiana Johnson reyndi hvað hún gat en þetta var ekki hennar dagur og var eins og boltinn vildi einfaldlega ekki ofan í körfuna hjá henni. Kiana var með 20 stig, Orla 25, Ástrós Lena Ægisdóttir 7, Perla Jóhannsdóttir 5 og Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 2. Hjá Keflavík var Brittany Dinkins atkvæðamest með 34 stig og kom Birna Valgerður Benonýsdóttir næst með 19 stig.

Næsti leikur KR er á heimavelli gegn Haukum á miðvikudag, 27. febrúar, klukkan 19.15.

Tölfræði leiksins

Deila þessari grein

Tengdar greinar