Fréttir á KR.is

Knúðu fram sigur í erfiðum leik

📁 Fréttir á KR.is, Körfuknattleiksdeild, Meistaraflokkur kvenna 🕔06.December 2017

Kvennalið KR mætti Fjölni í Dalhúsum í Grafarvogi sl. sunnudagskvöld og vann sinn níunda leik í röð í fyrstu deildinni með 73 stigum gegn 61. Liðið er með fullt hús stiga og situr í efsta sæti. Fjölnir veitti KR harða keppni og lét Vesturbæjarliðið hafa fyrir sigrinum. Er óhætt að segja að þetta hafi verið mesta mótspyrna, sem KR hefur fengið í vetur. Erlendi leikmaður liðsins, Desiree Ramos, sem hefur átt frekar náðuga daga, fékk að sýna hvað í henni býr og sýndi oft og tíðum falleg tilþrif. Réði Fjölnisliðið lítið við hana.
Fjölnir byrjaði leikinn betur og var yfir eftir fyrsta leikhluta, 15:13. Byrjunarlið KR átti í vandræðum með að klára í sókninni og það var ekki fyrr en Benedikt Guðmundsson þjálfari skipti fjórum leikmönnum inn á af bekknum í einu að gestirnir fóru að saxa á forskot heimaliðsins.
Í öðrum leikhluta náðu KR-ingar áttum og sneru taflinu við, léku þéttari vörn og flæðið jókst í sókninni. Fjölnir skoraði aðeins níu stig gegn 23 stigum KR og í hálfleik var staðan 24:35. Í þriðja leikhluta bætti KR enn í og jók muninn. Meira jafnræði var með liðunum í fjórða leikhluta og tókst Fjölni að koma muninum undir tíu stig, en KR-ingar gáfu aftur í og lönduðu að lokum sigri.
Ramos var potturinn og pannan í leik KR og það var kominn tími til að hún fengi að halda flugeldasýningu því að þetta mun hafa verið síðasti leikur hennar í röndóttu treyjunni. Ramos skoraði 29 stig og var með 15 fráköst að auki. Hún var aðeins með þrjár stoðsendingar, en þær hefðu orðið fleiri hefðu samherjarnir hitt betur þegar þeir fengu boltann frá henni í opnum færum. Ramos lék allar 40 mínútur leiksins, en hingað til hefur hún iðulega fengið að sitja meira á bekknum í ójöfnum leikjum en spila.

 

Ástrós Lena Ægisdóttir átti einnig mjög góðan leik í KR-liðinu. Hún barðist vel, var föst fyrir í vörninni og keyrði upp leik síns liðs. Þegar hún er komin á ferðina getur fátt stöðvað hana og svo gefur hún að auki eitraðar sendingar á samherja sína. Ástrós var með 16 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar.
Kristbjörg Pálsdóttir var einnig spræk, skoraði 12 stig, var með sex fráköst og þrjár stoðsendingar. Hún smaug oft laglega í gegnum vörn andstæðinganna og skoraði gullfallegar körfur.
Þá skoraði Eygló Kristín Óskarsdóttir sex stig og Lovísa Jenný Benediktsdóttir og Perla Jóhannsdóttir fimm stig hvor.
Í liði Fjölnis skoraði Berglind Karen Ingvarsdóttir 15 stig. Berglind komst snemma í villuvandræði og var látin hvíla fyrir vikið. Það munaði um minna fyrir Fjölni að þurfa að hvíla leikstjórnandann og gátu KR-ingar gengið á lagið. Erla Sif Kristinsdóttir skoraði 14 stig, Margrét Ósk Einarsdóttir 12 stig, McCalle Feller átta stig, Fanney Ragnarsdóttir sjö stig, Margrét Eiríksdóttir og Aníka Linda Hjálmarsdóttir tvö stig hvor og Svala Sigurðardóttir eitt stig. Fjölnir er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir níu leiki.
Næsti leikur KR er nk. fimmtudagskvöld en þá kemur lið ÍR í heimsókn í DHL höllina kl 19:15.

Deila þessari grein