Körfuknattleiksdeild

KR-ingar áfram á toppnum eftir öruggan sigur á Skallagrím

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔09.February 2019

KR-ingar sigruðu Skallagrím 80-64 í DHL-Höllinni eftir að hafa náð mest 33 stiga forystu í síðari hálfleik. Staðan í hálfleik var 43-32. Kiana Johnson var stigahæst með 23 stig, 10 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 varin. Orla O´Reilly kom næst með 22 stig.

Það var jafnræði á milli liðanna í byrjun en Skallagrímskonur smelltu niður þriggja stiga skotum sem rötuðu rétta leið. KR-ingar voru samt skrefinu á undan og leiddu 22-18 eftir fyrsta leikhluta. Þorbjörg Andrea stóð sig vel í miðherja stöðunni en hún var komin í byrjunarliðið í staðinn fyrir Unni Töru sem meiddist illa á hné gegn Breiðablik. KR-ingar fengu sýnishorn af Orlu einsog hún var áður en hún meiddist og er það fagnaðarefni. Frábær spilamennska stelpnanna skilaði þeim 11 stiga forystu í hálfleik 43-32.

Í síðari hálfleik var einsog öll vopn voru slegin úr höndum gestanna og KR gengu á lagið sigruðu leiklutann 24-8 þar sem vörnin var að skila sínu. Staðan eftir þrjá leikhluta 67-40. KR-ingar héldu áfram að bæta við forystuna og náðu muninum uppí 33 stig en dömur sem minna hafa fengið að spila í vetur fengu góð tækifæri. Skallagrímskonur keyrðu áfram á sínu byrjurnarliði og minnkuðu muninn, lokatölur 80-64.

Frábær sigur og toppsætið áfram KR. Keflavík eru jafnar KR að stigum með 15 sigra. Framundan er bikarhlé og er næsti leikur miðvikudaginn 20. febrúar í Keflavík þar sem toppliðin tvö mætast.

Tölfræði leiksins

 Mynd: Orla er hægt og rólega að komast í fyrra stand.

Deila þessari grein