Körfuknattleiksdeild

KR náði toppsætinu með afgerandi sigri á Keflavík

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔05.January 2019

KR tyllti sér á toppinn í úrvalsdeild kvenna í körfubolta með afgerandi sigri á keppinautunum í Keflavík, 93:71, í Vesturbænum í kvöld. Orla O´Rilley var stigahæst með 32 stig.

Leikurinn fór rólega af stað, en Keflvíkingar voru þó ívið sterkari. Er leið á leikinn náði KR þó forustu, en það var ekki fyrr en í þriðja leikhluta að fór að skilja á milli liðanna og í þeim fjórða var í raun aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.

 Mynd: Benedikt hefur sett saman flottan hóp

KR vann fyrsta leikhlutann með 23 stigum gegn 16. Keflvíkingum tókst aðeins að saxa á forskotið í öðrum leikhluta og unnu hann með tveimur stigum. Í hálfleik var staðan 41:36. KR var þó ákveðið að láta ekki söguna frá Keflavík endurtaka sig þegar liðið var með forystu alveg fram í fjórða leikhluta. Þá sigldi Keflavík framúr og landaði sigri.

KR-ingar mættu mjög ákveðnir til leiks í þriðja, vörnin þéttist og eins og oft vill verða skilar góð vörn auðveldum körfum. KR vann leikhlutann með 14 stigum og var munurinn kominn í 20 stig þegar honum lauk. Mestur varð munurinn 26 stig. Að mörgu leyti var jafnræði með liðunum, skotnýting svipuð, sem og fráköst og stoðsendingar. Meginmunurinn lá sennilega í töpuðum og stolnum boltum. KR fór mun betur með boltann, tapaði honum aðeins átta sinnum og tókst að stela honum í 17 skipti á meðan Keflavík tapaði honum í 22 skipti og stal honum aðeins fjórum sinnum.

 Mynd: Það var liðsheildar bragur á KR í dag

Hafi einhver óttast að KR-liðið myndi bera þess merki að hafa verið í leikjahléi yfir jól og áramót var það ástæðulaust. Kiana Johnson var mjög spræk í liði KR og tókst hvað eftir annað að sprengja upp vörn andstæðinganna, annað hvort með góðum sendingum eða gegnumbrotum. Orla O‘Reilly var einnig mjög viss í öllum sínum aðgerðum og átti frábæran leik. Í liði Keflavíkur sýndi Brittany Dinkins hvers hún er megnug og Birna Valgerður Benónýsdóttir átti einnig stórleik.

Fyrir leikinn var Keflavík í fyrsta sæti, Snæfell í öðru og KR í því þriðja með jafnmarga sigra og réðist röðin af stigamun og innbyrðis sigrum. Nú trónar KR-liðið eitt á toppnum því að keppinautarnir úr Stykkishólmi töpuðu einnig í dag gegn Val á Hlíðarenda 78-70.

Kiönu vantaði aðeins eina stoðsendingu til að vera með þrefalda tvennu, skoraði 27 stig og var með 12 fráköst og níu stoðsendingar. Að auki stal hún boltanum fimm sinnum. Orla var með 32 stig, fimm fráköst og fimm stolna bolta. Vilma Kesänen var með 11 stig og þrjár stoðsendingar, Unnur Tara Jónsdóttir með níu stig, átta fráköst og þrjá stolna bolta, Perla Jóhannsdóttir með sjö stig, tvö fráköst og tvær stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir var sömuleiðis með sjö stig, tvö fráköst og tvær stoðsendingar.

 Mynd: Unnur Tara var öflug í baráttunni

Í liði Keflavíkur var Brittanny með 17 stig, 11 fráköst og sex stoðsendingar, Birna með 19 stig, fjögur fráköst og eina stoðsendingu og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir og Katla Rún Garðasdóttir með átta stig hvor.

Næsti leikur KR verður á móti Haukum í Hafnarfirði á miðvikudag, 9. Janúar.

 Mynd: Orla O´Rilley var frábær í dag

Myndirnar tók Bára Dröfn á karfan.is

 

Deila þessari grein