Körfuknattleiksdeild

Mikilvægur sigur KR á Keflavík í Dominosdeild Karla

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔12.January 2019

KR-ingar sigruðu Keflavík 80-76 í hörku spennandi og jöfnum leik. Sigurinn þýðir fjórða sætið fyrir KR en liðið er jafnt Stjörnumönnum (sem eru í þriðja sæti) að stigum. Julian Boyd var stigahæstur KR-inga í kvöld með 26 stig.

Það var vel mætt í DHL-Höllina og stemmningin flott, KR-ingar yfir 20-18 eftir fyrsta leikhluta og 44-38 í hálfleik. Keflvíkingar komust yfir í þriðja leikhluta 50-54 en KR-ingar með þéttum varnarleik leiddu 59-56 eftir þrjá leikhluta. Loka fjórðungurinn var æsispennandi þar sem vel var tekið á því. Keflavík komust strax yfir 59-63 og leiddu 65-70 þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. KR jöfnuðu í 70-70 og mikil spenna í húsinu. Tvær körfur frá Keflavík komu þeim í 70-74 og útlitið svart hjá KR. KR-ingarnir Julian Boyd og Kristófer Acox skoruðu tvær körfur með glæsilegum troðslum og leikurinn jafn. Pavel Ermolinski skoraði spjaldið ofaní þriggja stiga körfu sem kom KR yfir 77-74 um leið og skotklukkan rann út. Michael Craion minnkaði muninn í 77-76. Bæði lið fengu tækifæri til að skora en náðu því ekki, eftir góða vörn KR brutu Keflavík á Mike DiNunno nýja leikmanni KR sem setti fyrra vítaskotið niður og kom KR í 78-76. Julian Boyd gerði sér lítið fyrir og náði sóknarfrákastinu eftir að síðara vítaskot Mike geigaði og brutu Keflvíkingar strax á honum. Julian var öryggið uppmálið og kom KR í 80-76 sem voru lokatölur leiksins.

Sigurinn mikilvægur og framundan er erfiður útileikur KR-inga gegn Þór Þorlákshöfn sem hafa verið að spila mjög vel á nýju ári.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun af karfan.is

Umfjöllun af Vísir.is

 Mynd: Kristófer Acox var öflugur í liði KR í kvöld

Mynd tekin af karfan.is Davíð Eldur

Deila þessari grein