Körfuknattleiksdeild

Naumt tap í fyrsta heimaleik

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔11.October 2018

Naumt tap í fyrsta heimaleik

KR lék sinn fyrsta heimaleik í meistarflokki kvenna gegn Stjörnunni í gærkvöldi og tapaði naumlega, 74-78.

KR-ingar byrjuðu afleitlega í leiknum á meðan allt gekk upp hjá Stjörnunni og var ekki langt liðið leiks þegar staðan var orðin 0-17 fyrir Stjörnuna.

KR náði sér þó á strik og vann sig aftur smátt og smátt inn í leikinn. Síðasti leikhluti var æsispennandi og munaði ekki miklu að KR næði að jafna á síðustu mínútunum.

Kiana Johnson átti frábæran leik fyrir KR og skoraði 30. Á einum kafla í lok fyrri hálfleiks skoraði hún sjö stig á 10 sekúndum, skoraði fyrst þrist og stal síðan boltanum í tvígang í innkasti og skoraði í bæði skiptin tvist.

Orla O‘Reilly sýndi einnig frábæra takta og skoraði 24 stig. Hún tók einnig 14 fráköst og var sérlega atkvæðamikil undir það síðasta þegar KR var að vinna upp forskot Stjörnunnar.

Vilma Kesänen var sein í gang, en átti lykilþátt í endasprettinum og hafði þegar upp var staðið skorað sex stig.

Þorbjörg Andrea Jónsdóttir átti einnig fínan leik og skoraði níu stig. Unnur Tara Jónsdóttir skoraði þrjú stig og Eygló Kristín Óskarsdóttir, sem var í byrjunarliði í stað Ástrósar Ægisdóttur, sem er meidd á ökkla, skoraði tvö stig.

Í liði Stjörnunnar var Danielle Victoria Rodriguez óstöðvandi og sýndi oft frábæra takta. Hún skoraði 38 stig og virtist geta skapað sér færi að vild. Maria Florencia Palacios var einnig drjúg og skoraði 20 stig.

Deila þessari grein