Körfuknattleiksdeild

Naumt tap í Keflavík

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔08.November 2018

Leikur Keflavíkur og KR í kvöld í Dominasdeild kvenna var æsispennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að leiða og átti KR möguleika á að fara með sigur af hólmi á einum erfiðasta útivelli landsins allt þar til á lokasekúndunum. Keflavík hafði hins vegar betur og sigraði 77:73.

Með tapinu fór KR úr fyrsta sæti í það fjórða, en Keflavík er í þriðja sæti. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sagði eftir leikinn að hann væri stoltur af sínu liði eftir tapið, þótt það hefði misst tökin á leiknum á lokasprettinum og ánægður með liðið eftir fyrstu umferðina í deildinni sem lauk í kvöld.

Jafnræði var með liðunum allan leikinn. KR-ingar leiddu þó lengst af, en aldrei munaði miklu. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 19:21 fyrir KR og 40:45 í hálfleik. KR var enn með fimm stiga forskot í lok þriðja leikhluta, 55:60, og náðu að koma muninum í sjö stig í upphafi þess fjórða. Þá gerði Keflavík hins vegar áhlaup og þegar tvær og hálf mínúta lifði leiks var Keflavík komið með sjö stiga forskot, 74:60. KR-ingar lögðu ekki árar í bát, skoruðu næstu sex stig með þristi frá Perlu Jóhannsdóttur og körfu og víti frá Kiönu Johnson. Þá var munurinn orðinn eitt stig, 74:73. Keflavík fékk víti í næstu sókn og skoraði Salbjörg Ragna Jónsdóttir úr öðru þeirra. KR-ingar lögðu í sókn þegar 18 sekúndur voru eftir, en náðu ekki að stela sigrinum. Á lokasekúndunum var brotið á Brittany Dinkins, erlendum leikmanni Keflavíkur, sem innsiglaði sigurinn þegar tæp sekúnda var eftir.

Leikurinn var bráðskemmtilegur fyrir áhorfendur og breyttist þegar á leið í einvígi á milli Johnson og Dinkins. Þegar upp var staðið var Dinkins með 37 stig og Johnson 36.

Johnson átti stórleik og var að auki með 17 fráköst, þar af 12 í sókn, fjórar stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Til samanburðar var Dinkins með 10 fráköst, fjórar stoðsendingar og tvo stolna bolta.

Næst Johnson að stigum í KR-liðinu var Perla Jóhannsdóttir með 12 stig, þar af tvo fallega þrista í lokin þegar KR var að minnka muninn, eitt frákast og eina stoðsendingu. Unnur Tara Jónsdóttir átti einni sterkan leik, var með 11 stig og 12 fráköst. Orla O‘Reilly lenti fljótt í villuvandræðum og náði aldrei sama flugi í kvöld og í undanförnum leikjum. Hún var með sjö stig, fimm fráköst og fjórar stoðsendingar. Vilma Kesänen var með fjögur stig, tvö fráköst og eina stoðsendingu. Ástrós Lena Ægisdóttir var með þrjú stig, eitt frákast og þrjár stoðsendingar. Þorbjörg Andrea Jónsdóttir var með fjögur fráköst í leiknum.

Fyrir Keflavík skoruðu Bryndís Guðmundsdóttir og Katla Rún Garðarsdóttir 11 stig hvor.

Með tapinu missti KR toppsætið. Snæfell er nú eitt í efsta sæti með sex sigra og eitt tap. Þrjú lið koma á hæla Hólmara með fimm sigra og tvö töp, Stjarnan, Keflavík og KR. Vegna innbyrðis viðureigna er KR í fjórða sæti. Næsti leikur KR er á heimavelli gegn Íslandsmeisturum Hauka klukkan fimm síðdegis á laugardag, 10. nóvember.

Tölfræði leiksins

Mynd: Kiana lék frábærlega í gær gegn keflavík. Mynd tekin af karfan.is

Deila þessari grein