Fréttir á KR.is

Öruggur sigur á Akureyri

📁 Fréttir á KR.is, Körfuknattleiksdeild 🕔11.November 2017

Leikmenn KR sýndu ekki mikil merki þess að hafa hossast í rútu frá Reykjavík til Akureyrar þegar flautað var til leiks gegn Þór í kvöld. Þórsarar skoruðu reyndar fyrsta stig leiksins, en þá komu 11 stig í röð hjá KR og tónninn var sleginn. Þegar upp var staðið var sjötti sigur liðsins, 64-93, í sex leikjum á tímabilinu í höfn.

Eftir sex umferðir í fyrstu deildinni er meistaraflokkur kvenna í efsta sæti með fjögurra stiga forskot á liðin, sem næst koma, Fjölni og Grindavík. Þór er í fjórða sæti með þrjá sigra og þrjú töp.

Perla Jóhannsdóttir var öflug í liði KR, var stigahæst með 22 stig og gaf að auki sex stoðsendingar og tók sjö fráköst. Nýting hennar fyrir utan þriggja stiga línuna var sérlega góð. Hún skoraði úr fimm skotum af sex.

23434739_1624028050952611_1850024272233993894_n

Desiree Ramos lék vel að venju. Hún skoraði 18 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Eygló Kristín Óskarsdóttir, sem er aðeins sextán ára, heldur áfram að spila vel í meistaraflokki . Hún var með 15 stig og sjö fráköst, þar af fimm í sókninni.

Framherjinn Unnur Tara Jónsdóttir skoraði níu stig og tók 12 fráköst, Þorbjört Andrea Friðriksdóttir var með sjö stig, Jenný Lovísa Benediktsdóttir með fimm stig, Ástrós Lena Ægisdóttir, Gunnhildur Bára Atladóttir og Þóra Birna Ingvarsdóttir með fjögur stig hver, Marín Matthildur Jónsdóttir þrjú stig og Emilía Bjarkar-Jónsdóttir tvö stig.

Í liði heimamanna var Heiða Hlín Björnsdóttir öflugust með 24 stig og Unnur Lára Ásgeirsdóttir átti góðan leik, skoraði 10 stig, reif niður sjö fráköst og var með fjórar stoðsendingar.

 

texti: KB
mynd: IJL
Deila þessari grein