Körfuknattleiksdeild

Sárt eins stigs tap gegn Breiðablik á heimavelli

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔20.March 2019

KR konur töpuðu fyrir Breiðablik 86-87 í æsispennandi leik þar sem KR-liðið leiddu 55-37 í hálfleik. Kiana Johnson var stigahæst með 34 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar.

Unnur Tara Jónsdóttir hefur verið að æfa með spelku en hún sleit krossbönd í hné einmitt gegn Breiðablik í síðustu umferð og talað um að hún yrði ekkert meira með. Það var því fagnaðarefni þegar að hún kom inná í kvöld og skilaði hún fínum leik, 14 stig og 7 fráköst.

KR tóku leikinn yfir eftir góða byrjun Blika og munaði þar mest um frábæra skotsýningu Vilmu Kesänen en hún skoraði 16 stig í fyrri hálfleik, KR leiddu 29-18 eftir fyrsta leikhluta. Leiðinda atvik átti sér stað þegar að þjálfari Breiðabliks hreytti ljótum orðum á Unni Töru eftir að hún og Björk leikmaður Breiðabliks lentu saman í klafsi undir körfu KR. Eitthvað sem ekki á að líðast og framkoma þjálfarans honum til skammar.

KR konur héldu áfram að spila vörn Blika sundur og saman og leiddu 55-37 í hálfleik og fátt í spilunum að KR myndi gera eitthvað annað en að vinna leikinn.

KR konur komu andlausar inní þriðja leikhlutann og Blikar runnu á bragðið og fengu sjálfstraust sem jókst með hverri mínútunni. Í stöðunni 64-53 kom 0-17 kafli Blika sem skoruðu einsog þær vildu á meðan ekkert gekk upp hjá heimakonum. Staðan eftir þrjá leikhluta 64-70 og 9-33 leikhluti eign Blika.

Í fjórða leikhluta komu fimm stig frá KR og staðan 69-70 en þá komu Blikar með átta stig í röð og KR skyndilega níu stigum undir. Benedikt tók sitt síðasta leikhlé þegar um 3 mínútur voru eftir og náðu KR konur að svara þessu en í stöðunni 80-86 skoruðu KR 6-0 og jafnaði Orla O´Reilly leikinn þegar að 11.1 sekúnda var eftir af leiknum. Blikar tóku leikhlé og braut Ástrós á Ivory þegar um 5 sekúndur voru eftir, eitthvað sem KR-ingar voru mjög ósáttir með og vildu meina að Ástrós hefði varið skotið. Ivory skoraði úr fyrra skotinu og fékk Kiana lokaskotið í erfiðri stöðu sem fór forgörðum og Blikar fönguðu gríðarlega, lokatölur 86-87.

KR gátu með sigri tryggt sæti sitt í úrslitakeppninni en gerðu það ekki þar sem Snæfell sigruðu Skallagrím í kvöld og því eru liðin jöfn af stigum. KR hafa betur innbyrðis en þær þurfa einn sigur til að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni. Baráttan framundan á milli þessara liða um fjórða sætið verður grimm og munu liðin selja sig dýrt í þeim tveimur leikjum sem eftir eru.

Blikar héldu í vonina um að halda sér uppi en liðið er nú fjórum stigum frá Skallagrím og hafa betur innbyrðis þegar að tvær umferðir eru eftir. Þær eiga eftir að leika gegn Stjörnunni og Keflavík.

KR-ingar sækja Skallagrím heim í Borgarnes í næstu umferð á laugardag og leika Snæfell heima gegn Haukum.

Tölfræði leiksins

 Mynd: Vilma Kesänen var frábær í fyrrihálfleik

Deila þessari grein

Tengdar greinar