Körfuknattleiksdeild

Stórleikur Ástrósar lykillinn að sigri KR á Val

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔11.April 2019

KR-ingar mættu í Valsheimilið í kvöld með bakið upp við vegg, 2-0 undir viðureign sinni gegn öflugu liði heimamanna í úrslitakeppninni í Dominosdeild kvenna og aðeins sigur gat seinkað sumarfríi. Valskonur höfðu frumkvæðið framan af, en KR var aldrei langt undan og tókst í seinni hálfleik að snúa leiknum sér í hag og landa naumum tveggja stiga sigri, 85:87.

Lykillinn að sigri KR var stórleikur Ástrósar Lenu Ægisdóttir, sem var í miklu stuði og hitti úr sjö af 11 þriggja stiga skotum eða 64%. Viðureignir liðanna hafa jafnar hingað til og leikurinn í kvöld var engin undantekning. Liðin skiptust á að skora, en þótt Valur væri skrefi á undan tókst þeim aldrei að slíta sig frá KR. Valur var þremur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 23:20, og þegar flautað var til hálfleiks hafði KR minnkað muninn í tvö stig, 40:38.

 Mynd: Vilma var stigahæst í kvöld með 23 stig.

KR kom af miklum krafti inn í þriðja leikhluta, skoraði á sjö og hálfri mínútu 17 stig á móti tveimur stigum Vals og allt í einu var munurinn orðinn 13 stig gestunum í vil. Valur minnkaði hins vegar muninn niður í sjö stig, 55:62, fyrir lok þriðja leikhluta. Í fjórða leikhlutanum tókst KR að halda bilinu milli liðanna, þótt ekki mætti miklu muna, og skiptust Ástrós, Vilma Kesänen, Orla O‘Reilly og Kiana Johnson á að skora mikilvægar körfur þegar Valur virtist við það að snúa leiknum sér í hag. Á þremur og hálfri mínútu eftir hálfleik voru Valsarar komnir með fjórar villur og KR með skotrétt það sem eftir lifði leikhlutans. Mátti búast við að gestirnir reyndu að færa sér það í nyt og keyra á heimamenn. Hins vegar var aðeins ein villa dæmd á Val næstu 15 mínúturnar og það var ekki fyrr en ein og hálf mínúta var eftir að villurnar fóru að hlaðast upp hjá leikmönnum Vals enda þurftu þeir að brjóta til að ná boltanum úr höndum andstæðinganna og eiga möguleika á að vinna upp forskot þeirra.

Mynd: Unnur Tara Jónsdóttir hafði góðar gætur á Helenu í kvöld.

Leikurinn var fullur af dramatík og á upphafsmínútum fjórða leikhluta ofbauð Darra Frey Atlasyni, þjálfara Vals, svo dómgæslan – eða skortur á dómgæslu – að hann fékk dæmdar á sig tvær tæknivillur og var sendur út úr húsi. Í hönd fóru æsispennandi mínútur þar sem Kiana gerði út um leikinn á vítalínunni á lokamínútunum, en tæpt var það.

 Mynd: Ástrós Lena Ægisdóttir var mögnuð í kvöld

Ástrós skoraði eins og áður sagði 21 stig í leiknum og tók að auki eitt frákast og gaf eina stoðsendingu. Vilma átti frábæran leik. Hún var stigahæst með 23 stig, hitti meðal annars úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum, tók tvö fráköst og var með fjórar stoðsendingar. Orla var einnig atkvæðamikil, hefur leikið frábærlega í vetur og var traust í kvöld að venju með 18 stig, 13 fráköst og tvær stoðsendingar. Kiana Johnson átti erfitt uppdráttar, enda í stífri gæslu allan leikinn, en hún var dugleg að finna samherja og þegar á reyndi í lokin brást ekki þegar kom að henni að klára leikinn á vítalínunni. Hún skoraði 14 stig, hitti þar af úr öllum tíu vítaskotum sínum, tók sex fráköst, gaf 11 stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum. Unnur Tara Jónsdóttir var með sjö stig, sjö fráköst og eina stoðsendingu. Hún hafði að auki það erfiða hlutverk að gæta Helenu Sverrisdóttur og gerði það vel þótt ekki komi það fram í tölfræðinni. Þar lagði Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir einnig sitt af mörkum og skoraði að auki fjögur stig.

Í liði Vals var Heather Butler frábær með 25 stig, Helena Sverrisdóttir átti einnig góðan leik, skoraði 17 stig, tók 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar auk þess að stela boltanum fjórum sinnum. Ásta Júlía Grímsdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir komu einnig sterkar inn í liði Vals.

Staðan í einvígi liðanna er nú 2-1 fyrir Val. Næsti leikur liðanna verður í DHL-höllinni á sunnudagskvöld klukkan 19.15 og ef eitthvað er að marka viðureignir liðanna hingað til er von á jöfnum og spennandi leik.

Deila þessari grein

Tengdar greinar