Körfuknattleiksdeild

Stúlknalið KR áfram í Geysisbikarnum

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔12.January 2019

Stúlknalið KR í körfubolta sigraði stúlknalið Hauka í gær í Hafnarfirði í átta liða úrslitum bikarkeppni Geysir og KKÍ og eru þar með komið í undanúrslit. Leikurinn var spennandi, jafn og kaflaskiptur, en KR-ingar voru sterkari í lokin og sigruðu 71:75.

KR byrjaði betur í leiknum og skoraði fyrstu sex stigin, en þá tóku Haukar við sér, skoruðu níu stig í röð og náðu forustu. Í lok fyrsta leikhluta var staðan 21:18 fyrir Hauka. Leikurinn var áfram jafn í öðrum leikhluta og í hálfleik voru Haukar enn með forustu, 34:32. KR-ingum tókst að snúa blaðinu við í þriðja leikhluta, en áfram var leikurinn þó jafn. Í lok hans var staðan 51:53 fyrir KR. Gestirnir voru skrefinu á undan í fjórða leikhluta. Þegar skammt lifði leiks var KR fimm stigum yfir, en þá skoruðu Haukar tvær körfur í röð og minnkuðu muninn í eitt stig. Haukar brutu á Margréti Blöndal þar sem hún kom upp með boltann og sendu hana á vítalínuna. Hún skoraði úr fyrra skotinu og kom muninum í tvö stig. Seinna skotið geigaði, en Eygló Óskarsdóttir náði frákastinu og setti boltann ofan í körfuna og jók forskotið í fjögur stig þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir.

KR hafði að mörgu leyti frumkvæði í leiknum, en Haukar héldu sé inni í leiknum með góðri nýtingu í þriggja stiga skotum. Skoraði heima liðið úr níu þriggja stiga skotum í leiknum. Eygló Óskarsdóttir var stigahæst með 19 stig, Jenný Lovísa Benediktsdóttir kom næst með18 stig. Næst kom Margrét með 14 stig og átti að auki margar stoðsendingar. Þóra Birna Ingvarsdóttir skoraði 11 stig og sýndi mikla baráttu. Ástrós Ægisdóttir skoraði 7 stig og Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 2.

Stúlknalið KR eru því komnar í undanúrslit bikarkeppni Geysis og KKÍ.

Mynd: Margrét Blöndal og Þór Birna Ingvarsdóttir skiluðu flottu hlutverki í sigri KR

Deila þessari grein

Tengdar greinar