Körfuknattleiksdeild

Tap í Hafnarfirði fyrir sprækum Haukum

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔08.February 2019

KR-ingar léku í kvöld gegn Haukum á Ásvöllum og sigruðu Haukar 83-74, staðan í hálfleik 37-41 KR í vil. Julian Boyd var stigahæstur með 18 stig.

KR-ingar mættu einbeittir til leiks og voru skrefinu á undan Haukum en hlutirnir duttu með Hafnfirðingum og þeir náðu að svara góðum varnarleik með lausum boltum og fengu sex dýrmæt stig á vítalínunni eftir að KR-ingar brutu í tvígang neyðarskotum þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna. KR-ingar leiddu 19-22 eftir fyrsta leikhluta. KR komust 7 stigum yfir 21-28 eftir þriggja stiga körfu frá Julian en Russel Woods sem átti frábæran leik fyrir Hauka setti niður hvert skotið á eftir öðru í öðrum leikhluta og Haukar komst yfir 32-30. Helgi Magg og Julian sáu til þess að KR náðu aftur forystu og leiddu 32-39 og staðan í hálfleik 37-41.

KR-ingar byrjuðu síðari hálfleik betur og komust mest 13 stigum yfir 42-55 og svo 47-57. Haukar börðust vel og skiptu yfir í svæðisvörn sem KR-ingar voru of hikandi gegn og Haukar fengu auðveldar körfur út úr. Staðan eftir þrjá leikhluta 57-60. Í upphafi fjórða leikhluta skoruðu KR fyrstu 5 stigin, þristur frá Jóni Arnóri og góð karfa frá Helga og staðan 57-65. Eftir það náðu KR-ingar ekki að skora í tæpar 4 mínútur og það nýttu Haukar sér vel. Fengu körfur frá öllum áttum og leiddu 70-65. Julian Boyd minnkaði muninn í 70-67 en ágætis skot tilraunir KR gegnu ekki upp og Haukar fengu auðveld hraðupphlaup þegar KR reyndu að taka sénsa og lokatölur 83-74.

KR-ingar voru kraftmiklir varnarlega en þegar á leið gerðu þeir mistök sem Haukar nýttu sér vel. Haukar voru að spila vel í kvöld og svæðisvörnin þeirra hægði full mikið á sóknarmönnum KR sem urðu of bráðir í sínum aðgerðum.

KR eru því áfram í 5. sæti deildarinnar en Haukar komu sér í 8. sæti með frábærum sigri.

Tölfræði leiksins

KR-ingar eiga næst leik gegn Njarðvík í undanúrslitum Geysisbikarsins – Leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni klukkan 20:15 fimmtudaginn 14. febrúar.  Haukar eru komnir í frí og eiga næst leik 4. mars.

 Mynd: Björn lék á ný með KR og stóð sig vel

Deila þessari grein