Körfuknattleiksdeild

Þrír sigrar á fjórum dögum

📁 Körfuknattleiksdeild 🕔03.February 2019

Stúlknalið KR í körfubolta vann öruggan sigur á sameinuðu liði Fjölnis, ÍR og Skallagríms á heimavelli síðdegis í dag. Þetta var þriðji sigur KR-liðsins á fjórum dögum. Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik, en í þriðja leikhluta stungu KR-ingar af og uppskáru að lokum 30 stiga sigur, 87-57.

Leikurinn var jafn og spennandi framan af og skiptust liðin á að vera með forustu. Í lok fyrsta leikhluta var KR þó yfir og var staðan 29:25. Gangur annars leikhluta var með svipuðum hætti, KR skrefinu á undan, andstæðingarnir aldrei langt undan. Í hálfleik var staðan 45:40. Í þriðja leikihluta þéttu KR-ingar hins vegar vörnina þannig að Fjölnir/ÍR/Skallagrímur sáu vart til sólar. Náðu gestirnir aðeins að skora fjögur stig í leikhlutanum gegn 23 stigum KR, staðan 68:44. Í fjórða leikhluta var aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði og fengu allir leikmenn liðsins að spreyta sig.

Stigaskor KR: Jenný Lovísa Benediktsdóttir 20 stig, Eygló Kristín Óskarsdóttir 17 stig, Margrét Blöndal 14 stig, Ástrós Lena Ægisdóttir 11 stig, Þóra Birna Ingvarsdóttir 7 stig, Emilia Bjarkar 6 stig, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 6 stig og Viktoría Líf Schmidt 4 stig.

KR hefur nú leikið átta umferðir í stúlknaflokki og er með sjö sigra og eitt tap. Næsti leikur stelpnanna er gegn FSu á Selfossi 10. febrúar.

Mynd: Jenný Lovísa Benediktsdóttir var stigahæst með 20 stig í dag.

Deila þessari grein