Fréttir á KR.is

Úrslitakeppnin hefst í kvöld!

📁 Fréttir á KR.is, Körfuknattleiksdeild 🕔15.March 2018

Í kvöld hefjast 8-liða úrslit Dominos deildar karla og það er heldur betur rimma strax í byrjun þegar Njarðvíkingar mæta í DHL. Rimmur þessara liða undanfarinna ára hafa verið æsispennandi og má búast við troðfullu húsi áhorfenda strax í fyrsta leik. KR liðið er í þeirri ótrúlegu stöðu að gera atlögu að 5. Íslandsmeistaratitlinum í röð.

Sannarlega magnaður árangur og ljóst að leikmenn, þjálfarar og allir KR-ingar ætla sér alla leið í ár! Nú verða allir að fjölmenna á alla leiki KR sem framundan eru og styðja liðið frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Eins og alltaf verða Signature KR Körfu hamborgarar í boði frá 18:00 og kl 18:30 opnast hurðin inn í sal. Mætum tímanlega og njótum þess saman að skemmtilegasta tími ársins er að hefjast!

ÁFRAM KR!

KR vann báðar deildarviðureignir sínar gegn Njarðvík á tímabilinu og sló þá líka út úr bikarnum! Liðin mættust síðast í undanúrslitum 2016 þar sem KR sló Njarðvík út eftir oddaleik, 3-2.Það er komin ákveðin trendlína í Domino´s-deildina en hún er sú að Íslandsmeistarar síðustu sex tímabil hafa einnig verið deildarmeistarar. Þetta leiðir þá líkum að góðu gengi Hauka í úrslitakeppninni en það er vitaskuld stórvafasamt að halda því fram af einhverjum þunga enda erum við að koma af einni af jöfnustu deildarkeppnum síðari ára.

Einn nýliði er í úrslitakeppninni þetta árið í hópi þjálfaranna en það er Njarðvíkingurinn Daníel Guðni Guðmundsson sem heldur inn í sína fyrstu úrslitakeppni af þjálfarastól. Sá sem oftast hefur farið í úrslitakeppnina sem þjálfari er annar Njarðvíkingur sem nú stýrir Keflavík, Friðrik Ingi Rúnarsson, en hann hefur þjálfað í 15 úrslitakeppnum og á leið inn í sína sextándu! Næsti maður á blað er Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar með sex úrslitakeppnir á bakinu og sú sjöunda á leiðinni.

 (Heimild: www.karfan.is)

Deila þessari grein