Pistar Körfuknattleiksdeild

Viðtal við Fannar Ólafsson

📁 Pistar Körfuknattleiksdeild 🕔11.October 2005


Hvenær byrjaðir þú að æfa körfubolta?

Ég var um 15 ára þegar ég byrjaði. Ég reyndar byrjaði ekki að neinu viti fyrr en ég fór í Menntó á Laugarvatni og fór að æfa undir stjórn Bjarna Gauks sem er núna hjá Breiðablik.


Varstu í einhverjum öðrum íþróttum?
Ég var alltaf á fullu í frjálsum og hestamennsku.


Hvernig var að alast upp í sveit?
Fínt að vera í sveitinni. Ég losnaði við einkenni Cocopuffs kynslóðarinnar sem Helgi Magg og fleiri þekkja.


Hverjar voru fyrirmyndir þínar í upphafi ferilsins?

Gaui Skúli, Jón Kr, Teitur og Falsi voru svona þessir sem maður vildi ná að narta í hælana á.


Þú fórstu ungir til Keflavíkur og varst hluti af sigursæli liði undir stjórn Sigga Ingimundar. Hvernig kom það til að þú fórst upphaflega til Keflavíkur og reyndist það ekki mikið gæfuskref?
Ég var að spila með HSK liðinu á Landsmóti 1997 undir stjórn Jóns Arnars sem núna er með ÍR,  einhverjir stuðningsmenn Kef sáu mig spila og létu Sigga vita.  Ég komst líka inn í U-21 árs liðið hjá Nonna Kr á þessum tíma og ég held að hann hafi hvíslað einhverju að Sigga. Það var eiginlega enginn spurning um að fara annað en í Keflavík eftir að það bauðst.  Þeir höfðu unnið allt árið áður og ég fann það strax á Sigga að hann var frábær þjálfari.  Ég naut góðs af þessu, við unnum fullt af titlum og ég hefði aldrei náð eins langt ef ég hefði ekki verið undir stjórn Sigga.  Hann er besti þjálfari sem ég hef haft.


Hvað stendur upp úr frá þessum tíma?
Titlarnir og liðið  er mér minnistæðast.  Það voru allir á sömu blaðsíðunni.  Það komst ekkert annað að en sigur í hverjum einasta leik. 


Þú varst úti í Bandaríkjunum í háskóla á skólastyrk, er það eitthvað sem þú mundir mæla með fyrir unga og upprennandi körfuboltamenn?
Já hiklaust.  Kanarnir kenna grunnatriðin vel og oftast er öll aðstaða til æfinga mjög góð.  Svo er líka þrælgaman að fara út og upplifa nýja hluti.


Svo reyndir þú fyrir þér í atvinnumennskunni, Grikklandi og Þýskalandi. Hvernig var sú reynsla?
Grikkirnir eru mjög sérstakir og viðhorfin öðruvísi en hérna heima.  Þeir eru algjörir brjálæðingar þegar kemur að því að styðja sitt lið t.d. brutust tvisvar út slagsmál milli áhorfenda á meðan á leik stóð hjá okkur og rýma varð húsið.  Alltaf var troðfullt á öllum leikjum og mikið fjör.  Það er mikil hefð fyrir körfu þar og hörkubolti spilaður.  Þetta sést kannski best í að þeir eru Evrópumeistarar í dag.  Þýskaland var meira eins og ég átti að venjast.  Boltinn var líkari þeim íslenska og svo var ég með kana sem þjálfara þannig að öll þjálfun var lík því sem að ég átti að venjast frá Bandaríkjunum. 


Í sumar gekkstu til liðs við KR, hvað kom til? Voru mörg lið á höttunum eftir þér?

Það töluðu nokkur lið við mig.  Mér leist vel á KR eftir að hafa talað við Bödda og co og ákvað því að slá til.  Margrét var líka að hefja nám í hjúkrunarfræðum hér í bænum.  Það skemmdi ekki fyrir að Eldur bróðir var fyrir hjá KR


Hvað, að þínu mati, hefur vantað upp á hjá KR undanfarin ár til að liðið sé í titlabaráttu?

Kannski helst stöðugleiki og að vinna jafna leiki,  annars get ég lítið dæmt um það þar sem ég hef ekki verið á landinu og hef lítið séð af leikjum liðsins.


Hvað telur þú þig geta fært liðinu?
Reynslu kannski fyrst og fremst og kannski svolitla hæð!!!


Hvernig líst þér á hópinn í dag?

Mér líst mjög vel á hópinn. 


Hvernig leggst deildin í þig?
Ég held að Keflavík og Njarðvík verði liðin sem við verðum að berjast við um toppsætið.  Svo sýnist mér Grindavík verða sterkt með Palla og Palla.  Önnur lið eru spurningarmerki í mínum augum því ég hef ekki séð þau spila. 


Segðu okkur aðeins frá meiðslunum sem hafa hrjáð þig, hvers eðlis eru þau og hvenær verður þú klár í slaginn?

Ég fór í litla aðgerð í júní þar sem var verið að hreinsa bólgur í hnénu á mér og brjósk sem komið var á flakk.  Þetta átti að vera lítil aðgerð en eitthvað gerðist því hnéið er búið að vera fullt af vökva síðan þá.   Ég hélt að ég væri farinn að sjá fyrir endan á þessu en því miður virðist ekkert lát vera á vökvasöfnun.  Ég er í meðferð núna sem ég bind vonir við að nái að hreinsa vökvann út og ef það tekst á ég að geta byrjað á fullu.


Áfram KR! 

Deila þessari grein