Knattspyrnudeild

Óli B. Jónsson

📁 Knattspyrnudeild 🕔01.March 2005

Óli B. Jónsson var farsæll leikmaður og þjálfari hjá KR. Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 1936 og þjálfaði meistaraflokk síðast árið 1970 en í þjálfaratíð hans vann KR marga af sínum glæsilegustu sigrum.

Óli B. Jónsson lést 11. febrúar sl. og verður jarðsunginn í dag frá Hafnarfjarðarkirkju.

 

Óli B. Jónsson fæddist 15. nóvember 1918. Hann var næst yngstur fjögurra bræðra sem léku allir með Íslandsmeistaraliðum KR. Sigurjón og Hákon eru eldri en Óli en Guðbjörn er yngstur bræðranna.

Óli lék 147 leiki með meistaraflokki á árunum 1936 til 1950 og var þjálfari meistaraflokks á árunum 1947-51, 1953-61 og 1969-70. Hann varð sjö sinnum Íslandsmeistari með KR sem leikmaður og þjálfari og félagið varð tvisvar bikmarmeistari undir stjórn hans. KR varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 1948-50, í þjálfaratíð Óla og hann var þjálfari liðsins sem sigraði með fullu húsi stiga á Íslandsmótinu 1959.

Óli lék einn A-landsleik, gegn Dönum árið 1949, og var þjálfari A-landsliðsins í sex leikjum. Hæst ber 4-3 sigurinn gegn Svíum á Melavelli árið 1951.

Óli er eini þjálfarinn sem hefur gert þrjú félög að Íslandsmeisturum í meistaraflokki karla. KR varð sex sinnum meistari í þjálfaratíð Óla, hann var þjálfari fyrstu Íslandsmeistara Keflavíkinga og Valsmenn urðu tvisvar Íslandsmeistarar undir stjórn Óla.

Deila þessari grein