Knattspyrnudeild

Sigurjón Jónsson

📁 Knattspyrnudeild 🕔30.May 2005

Kveðja frá KR

 

Sigurjón Jónsson, einn af sigursælustu knattspyrnumönnum í sögu KR er látinn. Sigurjón lék í meistaraflokki félagsins í 17 ár og varð sex sinnum Íslandsmeistari, fyrst árið 1927 og síðast árið 1934. Hákon bróðir hans var Íslandsmeistari með honum árin 1931 og 1932. Þegar þeir Sigurjón og Hákon voru hættir að spila tóku Óli B. og Guðbjörn, yngri bræður þeirra við og voru 6 sinnum í íslandsmeistaraliði KR á árunum 1941 til 1952, Guðbjörn í öll skiptin en Óli B. þrisvar. Sigurjón varð síðar formaður Knattspyrnusambands Íslands.

 

Það má því segja að Sigurjón og bræður hans úr Stóra Skipholti í Bráðræðisholtinu hafi lagt mikinn skerf til KR og eigi sennilega stærri sess en nokkur önnur fjölskylda í að gera sögu KR jafn glæsilega og raun ber vitni.

 

Sigurjón hefur alla tíð verið einn af ötulustu stuðningsmönnum KR. Hann tók virkan þátt í uppbyggingu KR í Skálafelli og hefur látið sig allt starf í félaginu miklu skipta. Aldrei vantaði Sigurjón á völlinn þegar KR keppti í efstu deild í fótbolta og seinni árin hafði hann sérstakan áhuga á að fylgjast með kvennaliði félagsins.

 

Það er mikill sjónarsviptir af Sigurjóni. KR hefur misst einn af sínum bestu sonum. Við erum þakklátir og stoltir að hafa átt jafn mikinn afreksmann og Sigurjón var.

 

Sigurjón átti eina dóttur, Svövu, sem má segja að hafi verið uppalin í KR og starfað mikið fyrir félagið. Hennar börn, Hannes og Sigrún fengu líka sannkallað KR uppeldi frá bæði mömmu og afa og hafa alla tíð verið dyggir stuðningsmenn félagsins. KR sendir þeim öllum samúðarkveðjur.

 

f.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur

Guðjón Guðmundsson, formaður.

Deila þessari grein