Knattspyrnudeild

Mfl. karla: Efstir

📁 Knattspyrnudeild 🕔11.August 2013

mka_kr_ibv_119KR-ingar eru komnir í efsta sæti Pepsi-deildarinnar eftir 3-1 sigur á ÍBV og hagstæð úrslit í öðrum leikjum. Bjarni Guðjónsson, Baldur Sigurðsson og Þorsteinn Már Ragnarsson skoruðu mörk KR.

 

KR-ingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu sanngjarnt 2-0. Bjarni skoraði fyrra markið með skoti úr aukaspyrnu. Boltinn breytti stefnu af einhverjum og rataði neðst í hægra markhornið.

 

Fjórum mínútum fyrir hlé léku KR-ingar ÍBV-vörnina sundur og saman. Haukur tók innkast og sendi á Atla sem lék inn í vítateiginn og gaf á Gary. Gary gaf boltann út í miðjan vítateiginn og Baldur sendi boltann innanfótar neðst í vinstra markhornið.

 

Tvö-núll í hálfleik, KR-ingar betri og engin stórtíðindi í vændum. Þá var Hannes rekinn af velli fyrir brot í vítateignum og ÍBV fékk víti. Rúnar Alex kom inná fyrir Atla og tók stöðu Hannesar í markinu. Þetta var fyrsti deildarleikur Rúnars en hann stóð sig mjög vel í útileiknum við Standard Liège í Evrópudeildinni um daginn. Fyrstu mínúturnar voru greinilega erfiðar en hann óx eftir því sem á leikinn leið og varði nokkra erfiða bolta; fast skot úr vítateignum á 66. mínútu og skallabolta af stuttu færi á 83. mínútu. Á 79. mínútu kom Haukur til bjargar og skallaði boltann í burtu eftir bakfallsspyrnu Eyjamanna.

 

KR átti líka að fá víti og einn varnarmanna ÍBV átti að fá rautt spjald. Gary var rifinn niður í vítateignum á 68. mínútu en ekkert dæmt og á 84. mínútu stöðvaði tvisturinn hjá ÍBV sendingu, sem stefndi innfyrir vörnina, með höndinni af ásetningi. Þetta á að vera gult spjald, seinna gula spjaldið í þessu tilviki því tvisturinn fékk gult spjald um miðjan fyrri hálfleik. Við hvað er Gunnar Jarl Jónsson hræddur? Durgana í Pepsi-mörkunum? ”Er erfitt að lyfta rauðu spjaldi á KR-velli?” spurðu þeir fyrir stuttu. Fyrir tveimur árum fullyrtu þeir að KR hefði alla dómara í vasanum. Hvernig svaraði Gunnar Jarl því? Sex gul og eitt rautt á KR-inga í leik gegn Þór fyrir norðan og færði brotið út úr vítateig Þórsara.

 

Rauða spjaldið breytti eðlilega miklu og næstu mínútur á eftir pressuðu Eyjamenn af krafti en allt KR-liðið varðist vel. Jonas Grønner átti frábæran leik í vörninni. Þetta var þriðji leikur hans og gaman að sjá hversu fljótur hann hefur verið að laga sig að íslenska boltanum.

 

Þegar leið á leikinn náðu KR-ingar að sækja aftur og þá komu upp þessi atvik sem Gunnar Jarl klúðraði. Haukur átti fyrsta almennilega skotið á mark ÍBV á 79. mínútu. Hann skallaði að marki eftir hornspyrnu en varnarmaður kastaði sér fram og skallaði boltann í burtu úr markteignum.

 

Svo kom markið sem kláraði leikinn. Mark sem KR-ingar eiga eftir að muna eftir lengi og í hvert skipti sem nafn Þorsteins Más Ragnarssonar verður nefnt. Þetta verður líklega eins og markið hans Arons Bjarka í Keflavík.

 

Þorsteinn fékk boltann við miðlínuna og upphófst mikið kapphlaup við besta mann ÍBV-liðsins. Þorsteinn hafði alla tíð stjórn á boltanum og skýldi honum vel fyrir varnarmanninum. Þegar hann komst inn í vítateiginn snéri hann á varnarmanninn og skrúfaði boltann upp í vinstra markhornið. Þvílíkt snilldarmark.

 

 

KR – ÍBV: 1-0 Bjarni Guðjónsson (16.), 2-0 Baldur Sigurðsson (41.), 2-1 Gunnar Már Guðmundsson (vsp 55.), 3-1 Þorsteinn Már Ragnarsson (90.+3)

 

Lið KR: Hannes Þór Halldórsson – Haukur Heiðar Hauksson, Jonas Grønner, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Guðmundur Reynir Gunnarsson – Bjarni Guðjónsson (f.), Brynjar Björn Gunnarsson – Atli Sigurjónsson (Rúnar Alex Rúnarsson 54.), Baldur Sigurðsson, Óskar Örn Hauksson (Emil Atlason 89.) – Gary Martin (Þorsteinn Már Ragnarsson 76.).

Varamenn:, Gunnar Þór Gunnarsson, Kjartan Henry Finnbogason, Torfi Karl Ólafsson, Aron Bjarki Jósepsson.

Gult spjald: Rúnar Kristinsson. Brottvísun: Hannes Þór Halldórsson (rautt) á 52. mínútu.

 

* 23. deildarleikur KR og ÍBV á KR-velli. KR sigraði í 13. sinn, ÍBV sigraði í fimm leikjum en fimm leikjum lauk með jafntefli. Markatalan er 38-21 KR í hag.

* Bjarni Guðjónsson skoraði sitt 23. mark í 205 leikjum með KR.

* Bjarni er 23. leikjahæsti KR-ingurinn ásamt Gunnari Einarssyni.

* Baldur Sigurðsson skoraði sitt 54. mark í 190 leikjum með KR.

* Baldur skoraði jafnframt 4500. mark mfl. KR.

* Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði sitt 23. mark í 71 leik með KR.

* Rúnar Alex Rúnarsson lék sinn fyrsta leik í efstu deild. Þetta var jafnframt áttundi leikur hans með mfl. KR.

* Jonas Grønner lék sinn fyrsta leik á KR-velli. Þar með hafa 197 KR-ingar leikið deildarleik á KR-velli.

* Jonas var valinn KR-ingur leiksins.

* Jónas Guðni Sævarsson lék ekki vegna meiðsla.

Deila þessari grein