Forsíðu kubbur Knattspyrna

KR – Valur á fimmtudag – upphitun í félagsheimilinu frá kl. 18

📁 Forsíðu kubbur Knattspyrna, Knattspyrnudeild, Meistarafl. karla 🕔04.July 2018

KR leikur gegn Val í 12. umferð Pepsi-deildar karla á Alvogen-velinum á fimmtudag. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og er von á hörkuleik eins og alltaf þegar þessi lið mætast.

KR-ingar eru sem fyrr um miðja deild en Valsmenn eru á toppnum eftir 6 sigurleiki í röð. Ljóst er að KR-ingar munu leggja allt í sölurnar til að binda enda á þessa sigurgöngu, ekki síst í ljósi mikilla vonbrigða í síðustu tveimur heimaleikjum sem hafa hvorugur unnist þrátt fyrir talsverða yfirburði KR á knattspyrnuvellinum.

KR hefur enn tækifæri til að gera sig gildandi í þessu Íslandsmóti með góðri stigasöfnun í seinni umferðinni og væri frábært að byrja hana með 3 stigum gegn erkifjendunum í Val.

Mikið verður um dýrðir á KR-svæðinu í kringum leikinn. Fjölbreyttur matur verður í boði á svæðinu frá 17:45 en Fish & Chips vagninn og Vöffluvagninn verða á matartorginu fyrir framan KR-heimilið. Þá verða KR-hamborgarar að venju í boði inni í félagsheimili auk þess sem Bikarbarinn verður opinn frá 17:45.

Frá 18:00 verður svo upphitun í félagsheimilinu. KR-ingurinn Grétar Sigfinnur Sigurðsson, lykilmaður í Íslandsmeistaraliðunum 2011 og 2013, mun kíkja í heimsókn og spá aðeins í spilin auk þess að rifja upp gamla tíma í KR-treyjunni.

Þá mun Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari KR, kynna byrjunarlið KR og uppleggið í leiknum fyrir stuðningsmönnum KR.

Loks má minnast á að ótrúlegt en satt er veðurspáin góð og spáð sól á vellinum.

 

Deila þessari grein