Forsíðu kubbur Knattspyrna

Ellert og Óskar heiðraðir fyrir síðasta heimaleikinn

📁 Forsíðu kubbur Knattspyrna, Knattspyrnudeild, Meistarafl. karla 🕔20.September 2018

KR tekur á móti Fylki í 21. umferð Pepsi-deildar karla á Alvogen-vellinum sunnudaginn næstkomandi, þann 23. september. Er um síðasta heimaleik KR þetta sumarið að ræða og því um að gera fyrir KR-inga að fjölmenna á völlinn og kveðja tímabilið af krafti.

Fyrir leik verða Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR, og Ellert B. Schram, fyrrverandi leikmaður KR, heiðraðir en Óskar sló fyrr í sumar markamet Ellerts fyrir KR. Með marki sínu gegn Grindavík í 14. umferð hefur Óskar skorað 120 mörk í 439 leikjum fyrir KR. Sló hann þar með met Ellerts sem skoraði 119 mörk í 273 leikjum fyrir KR á árunum 1957 til 1971. Vill KR heiðra Óskar fyrir þetta merkilega afrek og ekki síður Ellert fyrir að eiga metið öll þessi ár og verður því lítil athöfn fyrir leik.

Ellert mun svo mæta í félagsheimilið fyrir leik í stutt spjall þar sem rifjuð verða upp afrek hans á fótboltavellinum auk þess sem hann mun tala um lið KR í dag og stöðu félagsins.

KR er enn í hörkubaráttu um Evrópusæti og má helst ekki misstíga í leiknum. Liðið hefur 2 stiga forskot á FH í 4. sætinu og aðeins betri markatölu. Tapi liðið leiknum getur FH stolið 4. sætinu fyrir lokaumferðina. Fylkismenn eru enn í fallhættu og mun án efa selja sig dýrt enda gæti liðið dottið niður í fallsæti fyrir lokaumferðina ef KR vinnur og Fjölni tekst að vinna Breiðablik.

Handhafar félagsskírteina KR geta boðið vini með á leikinn og í kaffið í hálfleik eins og á tveimur öðrum leikjum fyrr í sumar.

 

Deila þessari grein