Íþróttahús

Íþróttahús
Árið 1942 skipaði stjórn KR nefnd til að vinna að skipulagi svæðisins og koma fram með tillögur að framtíðarskipulagi á reitnum í Kaplaskjóli. Stefnan var sett á að setja niður tvo grasvelli með hlaupabraut utan um annan þeirra og svo malarvöll.

Um tíma var líka horft til þess að reisa mannvirki við Hagatorg að frá því var horfið og hinn 7. febrúar 1953 var glæsilegur íþróttasalur KR við Kaplaskjólsveg tekinn í notkun. Það var bogamyndaða byggingin sem setti sterkan svip á svæðið um árabil og stóð fram á tíunda tug síðustu aldar.

Árið 1965 var hafinn undirbúningur að byggingu nýs salar í framhaldi af upphaflega íþróttahúsinu. Uppsláttur að veggjamótun hófst sumarið 1968 og húsið varð fokhelt 1970. Húsið var tekið í notkun 1971, en var þá ekki fullgert. Jafnhliða þessu húsi var lokið við allgóð búningsherbergi sem tilheyrðu salnum.

Stærsta viðbótin við húsakost KR á svæðinu við Kaplaskjólsveg var bygging stóra íþróttahússins, sem daglega gengur undir nafninu A-salur. Sú bygging var tekin í notkun árið 1999 og var mikil lyftistöng fyrir starf félagsins og jókst framboð á tímum í íþróttasölum gríðarlega við tilkomu þess. Fyrir utan meginsalinn er þar að finna minni sal á annarri hæðinni, 10 rúmgóða búningsklefa og skrifstofuhúsnæði á fyrstu og annarri hæð sem býður mikla möguleika á fullri skrifstofuþjónustu fyrir allar deildir félagsins.

Hluti aðstöðunnar er leigður til tónskólans Do Re Mí og má segja að sambúðin milli íþróttastarfs og tónmenntanáms unga fólksins sé í alla staði hin ágætasta. [Nánar um mannvirkin]

Share this article with friends