Ali meistarinn 2018

Þá er komið að síðasta pílumóti vetrarins. Það fer fram föstudaginn 13. apríl og hefst klukkan 20:00. Að þessu sinni verður keppt um Ali meistarann.

Boðið verður uppá grillmat fyrir mót frá Ali að sjálfsögðu. Það verður fillet með öllu tilheyrandi og pylsur fyrir þá sem það vilja.

Við byrjum að grilla um klukkan 18:30. Reiknum með að við borðum milli 19:00 og 20:00.

Þá förum við í X-ið og svo í 301. Dregið verður í lið þar sem byrjendur og lengra komnir lenda saman í liði.

Endilega látið erindið berast og mætum í sumarskapi.

Vormeistarinn 2018

Í gærkvöldi fór fram fyrsta pílumót þessa árs. Var það keppnin um vormeistarann 2018. Það voru ekki margir sem mættu á þetta mót en engu að síður var þetta mjög skemmtilegt.

Tveir herramenn mættu úr Hafnarfirði og voru þeir sérstaklega velkomnir en það voru þeir Gunnar og Atli sem hafa verið að kasta pílum í mörg ár. Einnig mætti ungur drengur úr Ólafsvík, Kristmundur Davíð Ólafsson. Gaman að sjá nýja menn detta inní þetta hjá okkur. Skemmtu allir sér konunglega þetta kvöld.

Úrslitin voru eftirfarandi:

X-Ið

  1.  Árni Halldórsson
  2. Atli
  3. Kristmundur Davíð Ólafsson

301

  1. sæti Kristinn Ingason / Haukur Germundsson
  2. Atli / Gunnar
  3. Karl “Refsari” Agnarsson / Árni Halldórsson

Að lokum vill stjórnin þakka öllum þeim sem mættu og hlökkum til að sjá ykkur á næsta móti í apríl.

Pílumót 23. mars

Næsta pílumót verður haldið föstudaginn 23. mars.

Við hvetjum alla píluvini að mæta tímanlega.

Byrjum á X-inu um klukkan 19:30. Staðreyndin er sú að við höfum alltaf byrjað svo seint en munum breyta því núna.

Svo tekur við 301 þar sem við munum draga eftir styrkleika hverjir lenda saman. Skiptum niður í byrjendur og lengra komna. Mótstjórn mun ákveða hverjir verða byrjendur og hverjir eru lengra komnir.

Endilega látið erindið berast.

Húsið opnar klukkan 19:00.

Stjórnin

Miðasala á Kúttarann 2018

Miðasala á Kúttarann er í fullum gangi . Viðburðurinn verður 2.mars og hefst kl 19:00.  Samningar hafa tekist við meistarakokka Múlakaffis og hreinsunargengið er í startholunum. Íslenskir sjómenn leggja sig í lífshættu við að færa okkur  kúttmagana og hreinsunargengið fylgir aldagömlum hefðum við hantéringu þeirra. Veislustjóri verður Páll Sævar Guðjónsson .Ari Eldjárn  fer með gamanmál .  Veglegir happdrættisvinningar og Vatn lífsins flýtur um borð.  Vinsamlega tryggið ykkur miða í tíma, því uppselt hefur verið á viðburðinn í 25 ár. Umsjón og framkvæmd er í harpix smurðum höndum handknattleiksdeildar K.R. Við bókunum tekur Sverrir Pálmason. sverrir@cato.is  

Kv,

Öldungaráð Píluvina & handknattleiksdeild K.R.

 

 

 

Pílumóti sem vera átti 9. febrúar frestað

Mótið sem vera átti nk. föstudag 9. febrúar hefur verið frestað. Ástæðan er sú að Körfuknattleikssamband Íslands færði til leik KR og Grindavíkur sem vera átti fimmtudaginn 8. febrúar yfir á föstudaginn 9. febrúar klukkan 20:00.

Það gerir það að verkum að 2 viðburðir geta ekki verið í KR á sama tíma. Körfuboltadeildin þarf að hafa félagsheimlið fyrir leikinn.

Nánari tímasetning á þessu móti liggur ekki fyrir sem stendur.

Eins og máltækið segir “Sá vægir sem vitið hefur meira”

Kúttarinn 2018

Minnum á Kúttarann 2018 , Gala viðburð í Félagsheimili K.R.  2.mars n.k.  Glæsilegt sjávarréttahlaðborð sem á engan sinn líka. Miðabókanir hafnar.  Viðburður með áratuga sögu. Allt 1. flokks og vel það. Vinsamlega hafið samband við Sverri Pálmason bókunarstjóra. (pls contact mr. Sverrir Palmason booking manager) til að tryggja ykkur miða.  sverrir@cato.is   

Tekið verður við örfáum sjálboðaliðum í hreinsun. Þar sem drengir verða að mönnum…

Umsjón með viðburðinum hefur handknattleiksdeild K.R.

 

 

 

Næsta pílumót 9. febrúar 19:30

Það er nýjum formanni heiður að tilkynna næsta pílumót. Það verður haldið föstudaginn 9. febrúar og hefst klukkan 19:30.

Ég vil hvetja alla til að mæta tímanlega. Það hefur farið allt of langur tími í að byrja mótin. Nú ætlum við að taka okkur taki hvað það varðar.

Byrjum venju samkvæmt á X-inu. Svo verður spilað 301 og munum við draga saman byrjendur og lengra komna. Þetta fyrirkomulag hefur verið reynt áður og gengið vel.

Ef einhverjir píluvinir gætu mætt klukkan 19:00 við að setja upp salinn væri það vel þegið.

Sjáumst næsta föstudag í pílu stuði.