Forsida-adal

Gullmót KR með betra móti

📁 Forsida-adal, Forsíða KR, Gullmót, Sundfréttir 🕔12.February 2018

Þrátt fyrir ýmsar áskoranir í ár eins og biluð sundlaug og brjálað veður þá mættu tæplega 500 sundmenn í Laugardalslaugina um helgina og kepptu á hinu árlega Gullmóti KR. Það er ekki laust við það að það hafi farið smá fiðringur um mannskapinn þegar laugin var ennþá föst í 40m hálftíma fyrir mót en þetta reddaðist allt eins og svo oft áður. Þátttakendur frá Neskaupstað, Akureyri, Húsavík, Dalvík, Ísafirði, Akranes og Reykjanesbæ létu slæma veðurspá ekki stoppa sig og mættu galvösk á svæðið. Norðlendingar þurftu þó að gista auka nótt í höfuðborginni þar sem ófært var á sunnudeginum.

Af mótinu sjálfu er það helst að frétta að alls voru slegin 14 Gullmótsmet þar af tvö í opnum flokki. KR-ingar nældu sér í 19 verðlaunapeninga sem er bæting um 5 frá því í fyrra. Nokkrir ungir KR-ingar voru að stíga sín fyrstu skref á mótinu og svo náði Júlíus Arnarsson sínu fyrsta AMÍ lágmarki. Björgvin Árni sló KR-metið í 400m fjórsundi en einnig eignuðust þau Elín Eir og Tristan KR-met í sömu grein.

Á laugardagskvöldinu fór svo fram hið árlega “Super Challenge”. Sú breyting varð þó í ár að aftur var keppt í 50m flugsundi í stað skriðsunds eins og undanfarin ár. Það er skemmst frá því að segja að keppnin í ár hafi verið æsispennandi og fóru leikar þannig að Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH varð hlutskörpust hjá konunum og hjá körlunum stóð Kolbeinn Hrafnkelsson einnig úr SH uppi sem sigurvegari eftir ævintýraleg undanúrslit. Einnig er gaman að segja frá því að Þröstur Ingi Gunnsteinsson úr Ármanni jafnaði íslenska aldursflokkametið hans Viktors Forafonov þegar hann synti á tímanum 33.10 í úrslitum hjá sveinum.

Deila þessari grein