FRÉTTIR

- fréttir úr öllum deildum kr -

Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 27 Apr, 2024
Melabúðin og knattspyrnudeild KR hafa gert með sér samstarfssamning næstu tvö árin, út árið 2025. Merki Melabúðarinnar mun prýða keppnistreyjur hjá meistaraflokkum knattspyrnudeildar á samningstímanum. "Það er ljúft fyrir hverfisverslunina Melabúðina að standa við bakið á hverfisíþróttafélaginu KR, enda er félagið ekki bara í fremstu röð í knattspyrnunni heldur líka með frábært starf fyrir börn og unglinga í hverfinu. Þetta formlega samstarf undirstrikar stuðning okkar en Melabúðin hefur staðið við bakið á félaginu um áraraðir. Sonur minn heimsækir einmitt íþróttahús KR reglulega með leikskólanum sínum og við gætum ekki verið glaðari" segir Snorri Guðmundsson, annar eigenda Melabúðarinnar "Við hjá KR erum gríðarlega stolt af samstarfi við Melabúðina þar sem Melabúðin er okkar hverfisverslun og þar hittast KR-ingar gjarnan og spjalla um gengi liðsins. Melabúðin hefur stutt ötullega við bakið á knattspyrnudeild félagsins undanfarin ár og því sannur heiður fyrir okkur að vera búin að ná formlegum samningi við Melabúðina" segir Einar Örn Ólafsson, stjórnarmaður knattspyrnudeildar KR.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 25 Apr, 2024
Gleðilegt sumar kæru KR-ingar Aðalfundur KR verður haldinn fimmtudaginn 2. maí í félagsheimili KR. Fundurinn hefst kl. 17:30. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf skv. lögum KR. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út á miðnætti 27. apríl. Framboðum skal skilað til framkvæmdastjóra félagsins, Bjarna Guðjónssonar, bg@kr.is .
Eftir Ásta Urbancic 23 Apr, 2024
KR-ingar sigruðu í þremur flokkum á Coca-Cola mótinu, sem fram fór í TBR-húsinu þann 20. apríl. Norbert Bedo sigraði í meistaraflokki karla og átti KR þrjá verðlaunahafa af fjórum í flokknum. Ellert Kristján Georgsson varð annar og Eiríkur Logi Gunnarsson í 3.-4. sæti. Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir sigraði í meistaraflokki kvenna á fyrsta mótinu eftir að hún vann sig upp í meistaraflokk. Hún vann móður sína, Guðrúnu Gestsdóttur í úrslitum. Helena Árnadóttir vann 1. flokk kvenna og aftur varð Guðrún Gestsdóttir í 2. sæti. Myndir af vef BTÍ.
Eftir Gunnar Egill Benonýsson 22 Apr, 2024
Nýtt skriðsundnámskeið í vesturbæjarlaug hefst 6 maí. Við erum alveg gífurlega ánægð með að tilkynna að hún Elín Melgar Aðalheiðardóttir hefur gengið til liðs við þjálfarateymi Sunddeildar KR og mun sjá um skriðsundnámskeiðin fyrir okkur Námskeið hefst 6 maí Mánudaga 20:00 – 20:40 Miðvikudaga 20:00 – 20:40 Skráning á: https://www.abler.io/.../product/Q2x1YlNlcnZpY2U6MjM5MjQ= ? Námskeið sem henta bæði þeim sem þurfa kennslu frá grunni og fyrir þá sem vilja bara fá betri leiðbeiningar til að ná betri tökum á skriðsundinu Námskeiðið er 8 skipti og er kennt tvisvar í viku. Kennari er Elín Melgar Aðalheiðardóttir Elín er með B.Ed í Heilsueflingu og heimilisfræði MT í Menntunarfræði leikskóla Þjálfaramenntun ÍSÍ 1. stig 5 ára reynsla af sundþjálfun- og kennslu Landsliðskona í kraftlyftingum Ásamt því að vera fyrrum sundkona úr röðum KR Ath aðgangur að lauginni er ekki innifalinn í verðinu og við mælum með að iðkenndur komi með sínar eigin froskalappir Núna er tíminn til að læra skriðsund til að geta synt í sólinni í sumar
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 22 Apr, 2024
Aðalfundur körfuknattleiksdeildar KR var haldinn í félagsheimili KR þann 11. apríl sl. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og stjórnarkjör. Fundarstjóri var Þórhildur Garðarsdóttir og fundarritari var Sigríður Ólafsdóttir. Á fundinum var ljóst að formaður deildarinnar Ellert Arnarsson og Aron Ívarsson varamaður í stjórn hyggðust ekki gefa kost á sér til formlegra stjórnarstarfa í bili og hlutu þeir einlægar þakkir frá deildinni fyrir störf sín í þágu félagsins auk hvatningar til áframhaldandi góðra verka en báðir starfa þeir í ráðum og nefndum á vegum körfunnar. Ný stjórn körfuknattleiksdeildar tók til starfa á fundinum og hlutu eftirtaldir kosningu í hana: Egill Ástráðsson formaður Björn Þorláksson Gunnhildur Bára Atladóttir Hjalti Már Einarsson Matthías Orri Sigurðarson Sigríður Ólafsdóttir Sæunn Stefánsdóttir Einnig voru eftirtaldir kosnir varamenn: Guðjón Böðvarsson Ingimar Guðmundsson Soffía Hjördís Ólafsdóttir Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir Illugi Steingrímsson tók sæti í afreksráði deildarinnar. Næsti leikur hjá meistaraflokki kvenna er í kvöld en stelpurnar leika oddaleik gegn Aþenu í Austurbergi. Ný stjórn hvetur KR-inga til þess að fjölmenna á þann leik. Áfram KR. 
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 21 Apr, 2024
Fyrir leik KR og Fram heiðraði knattspyrnudeild KR Kennie Chopart fyrir framlag hans til KR á árunum 2016-2023. Kennie varð íslandsmeistari með KR árið 2019. Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, afhenti Kennie skjöld fyrir leikinn.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 21 Apr, 2024
Jóhannes Kristinn Bjarnason (Jói) fótbrotnaði í leik KR og Fram í gær. Jói fer í aðgerð í vikunni og verður frá næstu 12 vikur. Góðan bata Jói - mótlæti er til að sigrast á.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 17 Apr, 2024
Landsliðsmaðurinn og KR-ingurinn Gauti Guðmundsson endaði í 13. sæti í svigi á Lúxemborgíska meistaramótinu, sem haldið var í Val d‘Isére í Frakklandi, eftir að hafa verið með rásnúmer 34 og náð 30 sæti eftir fyrri ferð. Gauti notfærði sér það að starta fyrstur í seinni ferð og gaf allt í botn og fékk lang besta tímann í þeirri ferð og keyrði sig upp um 17 sæti. Fyrir mótið fékk hann 29.27 FIS punkta sem er einnig hans besti árangur á ferlinum. Það er stór áfangi að skora undir 30 FIS punkta og því eru okkar menn að standa sig gríðarlega vel. "Ég er mjög glaður með árangurinn, gaman að sjá hvernig þrotlaus vinna og æfingar yfir síðastliðið ár skila sér. Núna er planið bara að gefa ennþá meira í þetta, æfa vel í sumar, og koma ennþá sterkari inn í næsta tímabil" sagði Gauti eftir mótið. Frétt tekin af vef Skíðasambands Íslands.
Eftir Gunnar Egill Benonýsson 15 Apr, 2024
12 – 14 apríl var Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug haldið í laugardalnum. Þar var Sunddeild KR með 3 keppendur, það voru þau: Aldís ögmundsdóttir Jón Haukur Þórsson Timotei Roland Randhawa Þau voru öll að keppa á Íslandsmeistara móti í fyrsta skipti og gekk mjög vel á mótinu
Lesa meira
Share by: